149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

staða krónunnar.

[10:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Krónan fellur hratt þessa dagana og við vitum hvað það þýðir. Það þýðir versnandi kjör í landinu. Með íslensku krónuna komumst við ekki upp úr hjólförunum og gamla sagan endurtekur sig aftur og aftur á kostnað almennings.

Aðstæður skapast þannig að verðbólgan vex og lánin hækka. Rekstrarstaða heimilanna versnar og fyrirtæki draga saman seglin. Nema útflutningsgreinar, hagur þeirra vænkast á meðan krónan er í lægðinni. Stundum gerist það vegna utanaðkomandi áfalla en oftast vegna þess að stjórnvöld gera mistök og oftast sömu mistökin aftur og aftur enda eru oftast sömu flokkarnir í aðstöðu til þess og núna með stuðningi Vinstri grænna.

Í dag segja menn að ástæðan fyrir falli krónunnar sé versnandi staða ferðaþjónustunnar og kröfugerðir verkalýðsfélaganna. Hvers vegna skyldu kröfur verkalýðsfélaganna vera með þeim hætti sem þær eru? Vegna þess að þau mistök voru gerð að draga stórlega úr barnabótum og húsnæðisstyrk og breyta sköttum efnameira fólki í hag og að bregðast ekki við hækkun launa forstjóra og okkar í mjög stóru stökki og láta hjá líða að taka á húsnæðisvandanum sem markaðurinn ræður augljóslega ekki við.

Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála mér um að fall krónunnar um þessar mundir sé vegna hagstjórnarmistaka stjórnvalda, að þar vegi þungt ákvörðun kjararáðs og að stjórnvöld hafi ekki beitt þeim ráðum og tækjum sem þau búa yfir til að auka jöfnuð?