149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

staða krónunnar.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að ítreka það að vissulega hefur vöxtur í ferðaþjónustu verið snarpur og m.a. þess vegna boðar ríkisstjórnin einhvers konar brottfarar- eða komugjöld, eða hvað við getum kallað það, á ferðaþjónustu. Það er ekki samdráttur í ferðaþjónustu en vöxturinn hefur hins vegar verið hægari en áður fyrr sem þýðir að ákveðið jafnvægi er að komast á greinina.

Hv. þingmaður kemur inn á rót vandans og vísar til evrunnar. Ég held að þá þurfum við að horfa víðar, horfa á þróun mála í Evrópu og þróun efnahagsmála í Evrópu þar sem ýmis ríki álfunnar á evrusvæðinu eru að fást við verulegan vanda í stjórn efnahagsmála, nú síðast Ítalía sem á í miklum deilum við yfirstjórn Evrópusambandsins vegna þeirra aðgerða sem þar er talað um að grípa til og krafna Evrópusambandsins um aukinn niðurskurð í ríkisrekstri.

Bent hefur verið á (Forseti hringir.) að innan ESB hafi ekki verið gripið til þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er til að evran þjóni þeim ríkjum álfunnar sem teljast á ákveðnum jaðarsvæðum.