149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

stuðningur við minkarækt.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Þegar best lét nam veltan eða útflutningur á minkaskinnum frá Íslandi yfir 2 milljörðum kr. Mikil þekking hefur byggst upp í landinu þegar kemur að þessari framleiðslu. Menn höfðu ekki spáð því og tölur sýna að íslensk skinn eru með þeim bestu í heiminum. Spár gera ráð fyrir að 2019, 2020 verði greinin komin í jafnvægi á heimsvísu. Það er því mikilvægt að menn brúi bilið í það minnsta yfir á næsta ár til þess að þekkingin tapist ekki og til að koma í veg fyrir þau miklu áhrif sem það kann að hafa ef afurðir úr minkaskinnsframleiðslu eru ekki nýttar.

Það er ánægjulegt að ráðherrann skuli segja að von sé á aðgerðum, ég túlka orð ráðherra þannig. Við höfum búist við að aðgerðir séu í nánd. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þær þurfa að koma á næstu dögum eða vikum. Það eru tvær til þrjár vikur þar til menn þurfa að taka ákvarðanir um rekstur sinn. Ég vona því, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) að ráðherra beiti sér fyrir því að þau svör sem bændur bíða eftir liggi fyrir á næstu tveimur til þremur vikum, eitthvað svoleiðis.