149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

varnarmál.

[10:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða varnarmál á breiðum grunni við hæstv. forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs í dag. Tilefnið er að um þessar mundir fer fram hernaðaræfing Atlantshafsbandalagsins, með leyfi forseta, Trident Juncture eins og hún nefnist á ensku, og sú fer fram hér á Íslandi. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu frá 19. september sl. kemur fram um æfinguna, með leyfi forseta:

„Dagana 19.–20. október verður haldin í Reykjavík skipulagsráðstefna vegna aðalæfingarinnar í Noregi. Von er á um tíu herskipum […] hingað til lands með allt að sex þúsund sjóliða. Um leið verður efnt til svonefndrar vetraræfingar í Þjórsárdal með 400 landgönguliðum hvorn dag.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að þess verði sérstaklega gætt að ekkert umhverfisrask verði vegna æfinganna.

Herra forseti. Í ljósi þess að Ísland hefur ekki lögfest 6. viðauka alþjóðasamnings um varnir gegn mengun frá skipum, og í ljósi þess að nú liggur fyrir að tíu herskip muni leggjast að bryggju hér á Fróni, spyr ég hvort tryggt hafi verið að þessi skip brenni ekki svartolíu eins og lög á Íslandi heimila og hvort gert hafi verið mat á umhverfisáhrifum af komu þessara skipa.

Þá vil ég spyrja hvað valdi því að fjárframlög til varnarmála hafi svo gott sem tvöfaldast frá árinu 2016, úr 1,1 milljarði í áætlaðan 2,1 milljarð kr. í fjárlögum ársins 2019.

Loks vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að ég veit að hún hefur talað fyrir friðsamlegum lausnum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, hvort henni finnist það líklegt til þess að tryggja frið og auka öryggi Íslendinga að hýsa hérlendis hernaðaræfingu sem líta mætti á sem beina ögrun við kjarnorkuveldið Rússland.