149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

varnarmál.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Hvað varðar fyrstu spurningu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, um mat á umhverfisáhrifum af heræfingunni sem hér stendur yfir, er mér ekki kunnugt um að slíkt mat hafi farið fram né heldur að slíkar heræfingar séu matsskyldar. Hæstv. umhverfisráðherra er hér í salnum og þekkir betur til lagaumgjarðarinnar í kringum mat á umhverfisáhrifum, en slíkt mat hefur í öllu falli ekki farið fram. Hins vegar er það svo að við þurfum að huga að svartolíumengun. Þar hefur Ísland verið í fararbroddi í alþjóðasamstarfi við að hvetja til banns við notkun svartolíu á höfum úti. Það á við um herskip jafnt sem önnur skip. Eins þurfum við að ráðast í verkefni sem er hluti af loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem er rafvæðing hafna. Við sjáum það auðvitað, ekki bara frá herskipum heldur öðrum skipum, að mengunin af þeim skipum sem hér liggja í höfn er gríðarleg. Þar þarf að fara í stórt átak. Ég tel að það eigi við um öll skip.

Hvað varðar matsskylduna á heræfingum verð ég eiginlega að vísa því til hæstv. umhverfisráðherra. Mér er ekki kunnugt um að slíkar æfingar séu matsskyldar.

Hv. þingmaður ræðir um varnarframlög. Kunnugt er að mjög rík áhersla hefur verið á það innan Atlantshafsbandalagsins að öll aðildarríki auki framlög sín til varnarmála. Rík krafa hefur verið um það á undanförnum árum. Þar hefur Ísland aukið sín framlög, en hins vegar liggur það fyrir að við erum fjarri öllum öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins þegar kemur að framlögum til varnarmála, við erum fjarri öllum fjárhæðum eða hlutföllum hvernig sem þeim teningi er snúið.

Síðan hvað varðar spurningu hv. þingmanns um friðsamlegar lausnir er tími minn á þrotum. Ég hlýt hins vegar að segja að skipulagning þessarar heræfingar var hafin áður en ég tók við sem forsætisráðherra. Heræfingar eru ekki eitthvað sem mér hugnast, enda er hv. (Forseti hringir.) þingmanni kunnugt um mína afstöðu og hreyfingar minnar til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, en þetta er auðvitað hluti af starfsemi bandalagsins.