149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

fátækt.

[10:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta voru rýr svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Hver var umræðan hjá ríkisstjórninni í gær, á degi fátæktar? Hver var hún? Engin. Og hvar er umræðan um krónu á móti krónu? Það er rangt að tala um að samráðshópur um endurskoðun almannatrygginga hafi eitthvað með starfsgetumatið að gera. Starfsgetumatið er alveg sérútgáfa. Það voru sérfræðingar sem komu að því. Öryrkjar fengu ekki að koma nálægt því. Hvar er þá allt tal um að tala ekki um okkur án okkar? Það var ekki virt. Svo eru menn alveg steinhissa á að Öryrkjabandalagið neiti að kyngja þessu. Auðvitað neitar það; það er ólíðandi að nota fjárhagslega svipu, krónu á móti krónu, til að þvinga fólk í eitthvað sem það vill ekki.

Ég spyr: Ætlar ríkisstjórnin að sjá til þess, strax 1. desember, að hætt verði við krónu á móti krónu skerðingu þannig að fólk á lægstu bótum og launum geti haldið smájól en þurfi ekki að fara í biðraðir eftir mat?