149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

störf umboðsmanns Alþingis.

[11:06]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ágæt svör og skynja ekki annað en að þessi mál verði tekin fastari tökum en hingað til enda held ég að það sé afskaplega brýnt.

Mig langar að vekja máls á öðru sem fram kom í máli umboðsmanns og skýrslu hans en það er afgreiðsla og þjónusta við borgara eða íbúa þessa lands sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Þar er frumkvæðisathugun í gangi og boðuð skýrsla og ég held að ég ýki ekki þegar ég fullyrði að umboðsmaður hafi boðað svarta skýrslu um þau mál.

Því vil ég spyrja, eins og ég spurði hv. umboðsmann: Er ekki kominn tími til að við tökum mjög föstum tökum þjónustu okkar, birtingu laga og reglna þegar erlendir borgarar eiga í hlut? Staðreyndin er sú að hér búa tugir þúsunda (Forseti hringir.) borgara Íslands sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og eiga erfitt með að(Forseti hringir.) fóta sig í þeim réttindum og skyldum sem fylgja því að búa hér á landi.