149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

störf umboðsmanns Alþingis.

[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Aftur þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja máls á máli sem við þurfum að takast á við. Raunar er margt fleira í skýrslum umboðsmanns sem við þurfum að taka til skoðunar, bæði af hálfu framkvæmdarvaldsins og Alþingis. Það er of langt mál að fara í það hér.

Það er hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að hér býr verulegur fjöldi fólks, tæplega 20.000 Pólverjar, svo að dæmi sé tekið, sem eru stærsti innflytjendahópurinn, og margir fleiri hópar. Við þurfum að taka afstöðu til þess hvort við ætlum að reyna að safna þjónustu við innflytjendur saman á einn stað — fyrir liggur ágætistillaga frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, um ráðgjafarstofu innflytjenda, þar sem hugsanlega væri hægt að veita leiðbeiningar og ráðgjöf fyrir innflytjendur og vísa þeim áfram í kerfinu, líkt og hugsunin hefur verið í skólakerfinu en þar hafa verið tilteknir móttökuskólar — eða hvort við ætlum að stefna að því að bjóða upp á þá þjónustu alls staðar. Það kann að vera meira umleikis að vinna það á þann veg.

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir, það er úrlausnarefni hvernig við ætlum að tryggja að þetta fólk njóti eðlilegrar þjónustu, ráðgjafar og réttinda hér á landi.