149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

beiðni um fund í atvinnuveganefnd.

[11:09]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að leita í ráða hjá hæstv. ráðherra vegna beiðni minnar um fund í atvinnuveganefnd. Þannig var að 27. september sl. barst sú frétt að hætt væri við ráðningu nýs skrifstofustjóra í atvinnuvegaráðuneytinu, á landbúnaðarskrifstofunni, og að sameina ætti skrifstofu matvæla og landbúnaðar. Þá óskaði ég eftir að á fund atvinnuveganefndar kæmi landbúnaðarráðherra og aðilar frá Bændasamtökum o.fl. til að útskýra það mál. Ég hef ítrekað það síðan og fengið þau rýru svör að ráðherra ætlaði að útskýra málið á öðrum vettvangi. Eins hef ég beðið um að á sama fundi verði skýrð sú staða sem komin er upp í hráakjötsmálinu vegna dóms þar um.