149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

beiðni um fund í atvinnuveganefnd.

[11:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér í þessu máli, að sjá til þess að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra komi fyrir nefndina og ræði þessi mikilvægu mál. Það er hluti af eftirlitshlutverki okkar þingmanna að fá ráðherra til að skýra mál sitt. Við getum haft alls konar skoðanir á því hvað ráðherrann er að gera. Honum ber að koma fyrir nefndina. Honum ber að útskýra hvað vakir fyrir honum varðandi ráðuneytið og líka hver viðbrögðin eiga að vera í því stóra máli sem hrákjötsmálið er. Það getur ekki verið að hæstv. ráðherra líti svo á að þetta sé ekki stórt mál, þetta komi ekki þinginu við.

Þess vegna bið ég hæstv. forseta að beita sér fyrir því að útskýra það fyrir hæstv. ráðherra að hans hlutverk er líka að koma fyrir nefndina, koma fyrir þingmenn, ræða við þingmenn og útskýra afstöðu sína þar. Eftir því hefur verið óskað ítrekað að ráðherra komi fyrir þessa nefnd. Ég hvet hæstv. forseta til að beita sér í því.