149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:33]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er í fyrsta lagi beinlínis rangt að það séu eingöngu tveir möguleikar í stöðunni, þ.e. meint ráðsfyrirkomulag eða verðbólgumarkmið.

Hér er ég með greiningarlíkan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ég ætla að fjalla meira um á eftir. Ég nefni það vegna þess að það er þrátt fyrir allt rétt sem fram kemur í skýrslunni, í rammagrein 5; það eru eingöngu til tveir valkostir í þeim skilningi að annars vegar horfum við fram á haftafyrirkomulag þar sem annaðhvort eru viðskiptahöft viðstöðulaust eða þá að þau eru tekin af öðru hverju og svo verður einhvers konar hrun og þá eru þau sett á að nýju.

Eða þá hinn valkosturinn, að það er einhvers konar meint bandalag eða alla vega stefnumörkun í átt að því að fylgja gengi stærri gjaldmiðils.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er afskaplega einföld. Að því gefnu að við viðhöldum núverandi fyrirkomulagi með verðbólgumarkmiði, hvernig réttlætir hæstv. forsætisráðherra það fyrir íslensku þjóðinni að við verðum annaðhvort með viðvarandi haftafyrirkomulag eða haftafyrirkomulag sem sett er á alltaf þegar hrun verður?