149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið. Ég fór hér yfir niðurstöðu nefndarinnar. Hv. þingmaður gefur það út að hann sé ósammála þessu mati nefndarinnar. Mér finnst rétt að halda því til haga að það er niðurstaða hennar að segja að það séu tveir valkostir fyrir hendi.

Valið stendur auðvitað ekki eingöngu á milli verðbólgumarkmiðs og myntráðs, ég vona að ég hafi ekki sagt það í ræðu minni, heldur ólíkrar peningastefnu með ólíkum markmiðum. Við þekkjum það að Seðlabankar eru með ólík markmið milli landa. Verðbólgumarkmið hefur þar verið algengast en við þekkjum það til að mynda frá seðlabanka Bandaríkjanna að atvinnustig kemur töluvert inn í peningastjórnina þar. Það er því í raun og veru það sem horft er á, hin sjálfstæða peningastefna eða myntráð. Það voru valkostirnir sem ég taldi mig vera að fara yfir í ræðu minni áðan.

Hv. þingmaður spyr hvernig geti ég réttlætt núverandi fyrirkomulag. Við höfum rætt að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi og styrkja ramma peningastefnunnar. Ef hv. þingmaður skilgreinir fjárstreymistækið sem verið hefur í notkun sem höft þá er það nokkuð sem hv. þingmaður getur komið að í seinna andsvari sínu.

Ég er ekki sammála því að horfa á fjárstreymistæki sem höft. Ég tel eðlilegt að þeir sem fara með yfirstjórn peningastefnunnar hafi einhver tæki t.d. til að koma í veg fyrir vaxtamunarviðskipti á borð við þau sem við sáum í aðdraganda hruns þar sem Seðlabankinn reyndi að beita stýrivaxtatækinu til þess að hafa áhrif á vaxtamunarviðskipti, sem urðu gríðarlega mikil þá vegna þess að engin fjárstreymistæki voru fyrir hendi.

Ef við viljum halda í þá kosti sem fylgja sjálfstæðri peningastefnu, því að það er engin töfralausn, getum við sagt, þegar kemur að gjaldmiðlamálum, held ég að það sé nauðsynlegt að viðkomandi aðili sem fer með yfirstjórn peningastefnunnar hafi tæki til þess að stjórna henni.