149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki 40% almenn bindiskylda en það er 40% bindiskylda á innflæði. Forsætisráðherra, sú sem hér stendur, telur eðlilegt með sjálfstæðri peningamálastefnu að hægt sé að beita fjárstreymistækjum. Starfshópurinn leggur til að dregið verði úr þeirri notkun og hún gerð fyrirsjáanlegri. Það er tillaga sem ég tel að við ættum að ræða hér.

Hins vegar spyr þingmaðurinn um valkostinn að binda gjaldmiðil okkar við annan gjaldmiðil. Ég tel að færð séu sannfærandi rök gegn þeirri leið. Ég er í raun og veru sammála niðurstöðu Seðlabankans frá árinu 2012 sem ég vitnaði til áðan, um að valkostirnir séu íslensk króna með styrkari ramma um peningastefnuna, eða innganga í Evrópusambandið og upptaka evru. Ég tel að myntráðsleiðin, þ.e. að binda gjaldmiðilinn við annan gjaldmiðil, hafi allt of mikla áhættu í för með sér.

Ef við skoðum reynsluna af því hvar þetta hefur verið reynt og hvar þetta hefur verið gert hafa aðstæður þar verið mjög ólíkar því sem tíðkast á Íslandi. Við getum tekið Eistland sem dæmi þar sem eru allt aðrar aðstæður á vinnumarkaði, allt önnur staða í fjármálakerfinu, sem var nú fyrst og fremst í erlendri eigu (Forseti hringir.) á þessum tíma. Við erum að tala um þrautavaralánveitanda sem fellur þar með niður. Ég held að það séu of miklir ókostir við það fyrirkomulag.