149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að íslenska krónan sé hafin yfir gagnrýni eða nokkur annar gjaldmiðill. Mér finnst miður að þessi umræða á það til einmitt að fara í einhverjar skotgrafir þar sem reynt er að draga fram að allt sé frábært þar og ómögulegt hér og öfugt.

Hv. þingmaður spyr: Var nefndinni of þröngur stakkur skorinn? Sá stakkur var sniðinn af fyrri ríkisstjórn, af Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn sem þá áttu í ríkisstjórnarsamstarfi. Var hann of þröngur? Ég skal ekki segja til um það. Við eigum góða skýrslu frá Seðlabankanum frá árinu 2012 sem fór yfir sviðið með töluvert víðtækari hætti, getum við sagt. Ég tel hins vegar að niðurstöður skýrslunnar geti verið okkur mjög gagnlegar við að móta styrkari ramma um peningastefnu. Það var ástæðan fyrir því að mér fannst rétt, þó að ég hafi ekki komið að því að setja þessa nefnd á laggirnar, að hún myndi ljúka störfum sínum því að ég taldi að það gæti skipt okkur máli.

Hv. þingmaður nefnir hér evruna. Eftir hrun var mjög uppi sú skoðun hér að kreppan á Íslandi væri fyrst og fremst gjaldmiðilskreppa. Því var haldið fram af mörgum. Ég tel að allt sem gerst hefur síðan sýni okkur að svo var ekki. Það varð bankahrun víðar en á Íslandi. Krónan reyndist hafa kosti og galla í hruninu og evran reyndist hafa kosti og galla í hruninu.

Ef við horfum til að mynda á hvað einn af eftirlætishagfræðingum okkar hv. þingmanns, Thomas Piketty, hefur skrifað um þessi mál þá er einmitt gagnrýni hans á evruna sú að þar hafi verið of geyst farið í að stilla upp evrópska myntsvæðinu. Þar hafi verið komið á laggirnar sameiginlegum gjaldmiðli fyrir mörg ríki án þess að fyrir lægi sameiginleg ríkisfjármálastefna og sameiginleg skattastefna sem væri nauðsynleg til að tryggja öflugar undirstöður fyrir evruna sem gjaldmiðil í jafn ólíkum löndum og raun ber vitni.

Það teldi ég að væri sú spurning sem Evrópusambandið og evrusvæðið ættu að vera að fást við núna, þ.e. hvernig hægt er að tryggja aukna miðstýringu og samhæfingu í stjórn peningamála og ríkisfjármála (Forseti hringir.) á evrusvæðinu. Ég tel að (Forseti hringir.) fyrirkomulagið hafi leitt í ljós, og er sammála Piketty um það, að það eru líka ákveðnir gallar á evrufyrirkomulaginu.