149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þetta andsvar. Eins og fram kom í máli mínu byggir skýrslan á því erindisbréfi sem gefið var út. Hv. þingmaður lýsir þeirri skoðun sinni að hann telji að fara eigi víðar yfir sviðið.

Skýrslunni var skilað til mín sem forsætisráðherra og ég sem handhafi framkvæmdarvalds fylgi því eftir á mínum vettvangi. Ég mun gera það og hef boðað breytingar á lögum um Seðlabankann og mun halda þeirri vinnu áfram. Mín skoðun er þó alltaf sú að Alþingi Íslendinga eigi að taka upp svona mál sjálft. Það þarf ekki leyfi framkvæmdarvaldsins til þess.

Fyrir liggja verulega mikil gögn og skýrslur. Ég vísaði sjálf í skýrslu Seðlabankans frá árinu 2012, en sömuleiðis höfum við fengið fjölmarga erlenda sérfræðinga sem komið hafa að málum eftir hrun, komið með ábendingar og gert tillögur um það hvernig við getum styrkt betur ramma peningastefnunnar.

Mér myndi finnast það góð hugmynd að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis færi með skipulögðum hætti yfir þá ráðgjöf og tæki afstöðu, og skoðaði það jafnvel hvort hún kæmi með sitt eigið álit inn í þessa vinnu. Ég myndi fagna því af því að ég ítreka að ég tel að Alþingi geti tekið hvaða mál sem er og sett á dagskrá. Það er til gagns fyrir framkvæmdarvaldið að fá skoðun Alþingis á málinu.

Ef við horfum á það sem hv. þingmaður nefndi einnig, þ.e. skýrslu Seðlabankans sem kom með þessa tvo valkosti, annars vegar íslensku krónuna áfram í öðrum ramma, getum við sagt, um peningastefnuna, og hins vegar inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru, er skoðun mín sú að seinni valkosturinn snúist ekki eingöngu um peningastefnu. Hann snýst um margt annað sem varðar miklu fleiri þætti samfélagsins en eingöngu peningastefnuna. Það er hins vegar hið besta mál ef þingið tekur þessa skýrslu fram aftur og skoðar jafnvel hvort vinna megi einhverja áframhaldandi vinnu á grundvelli hennar.