149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Þinginu eru auðvitað ekki settar neinar skorður í þessu efni, það getur skoðað hverja þá valkosti sem það kýs að skoða. Við höfum gripið til þverpólitísks samstarfs og samráðs af minna tilefni en þessu og þessi ríkisstjórn hefur ítrekað það í mörgum öðrum tilvikum. En það veldur auðvitað vonbrigðum að ekki sé reynt að afla einhvers þverpólitísks stuðnings við þá leið sem valin er, heldur lýsir ríkisstjórnin því þvert á móti yfir, áður en umræðan einu sinni hefst í þessum sal, að áfram verði stuðst við verðbólgumarkmið með þeim hörmulega árangri sem það hefur skilað okkur hingað til.

Það er kannski annað sem vert er að nefna og er mikilvægur lærdómur. Það snýr að leikreglunum og pólitískum stuðningi við peningastefnuna, það eru einmitt ríkisfjármálin sem ítrekað er bent á að þurfi að styðja við peningastefnuna, meðan stefna þessarar ríkisstjórnar gengur þvert á alla skynsemi í peningastefnu við þær kringumstæður sem við erum í núna. Það er beinlínis markmið og stefna þessarar ríkisstjórnar að brjóta þessar sömu leikreglur sem talað er um að sé svo mikilvægt að virða. (Forseti hringir.) Ríkisfjármálin hér eru enn eina ferðina að kynda undir þegar þau ættu að minnsta kosti að vera hlutlaus. (Forseti hringir.)

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Væri ekki ágætt fyrsta skref að byrja á því að fara eftir leikreglunum?