149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ræðutíminn er vandamál í þessari umræðu. Það hefði kannski verið betra að semja um ræðutíma. Nefni ég það við herra forseta.

Ég vil segja við hv. þingmann að ég er sammála hv. þingmanni um að aukin samræming þurfi ekki að kalla á eitt ríki í Evrópu. Það er ekki mín skoðun. En það sem ég er í raun og veru að kanna í andsvari mínu er hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að verið hafi ákveðinn hagstjórnarvandi á evrusvæðinu sem haft hafi áhrif á lífskjör almennings.

Er ekki þörf á því að ríkin vinni betur saman þegar kemur að undirstöðuþáttum hagstjórnarinnar á borð við ríkisfjármál og skatta? Er það ekki sömuleiðis ákveðið vandamál að Evrópski seðlabankinn sitji sem ákveðinn sökudólgur í umræðu innan Evrópusambandsins fyrir hagstjórnarvandanum þar sem auðvelt er fyrir ríkisstjórnir innan evrusvæðis að vísa alltaf á Evrópska seðlabankann sem ábyrgðaraðila og forðast þá að taka á vandanum heima fyrir?

Því að þarna erum við að mínu viti auðvitað að tala um þann hagstjórnarvanda sem við höfum séð á evrusvæðinu.