149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Grikkir áttu auðvitað í miklum efnahagsvanda. Þegar við skoðum atvinnulífið, og þá atvinnugrein sem við treystum helst á, þá var það hagkerfið í kringum ferðaþjónustuna í Grikklandi sem ekki síst olli þeim vanda.

Þeim datt hins vegar ekki í hug að skipta út evrunni og taka upp sinn gjaldmiðil. (Gripið fram í: Jú, Jú.) — Þeir gerðu það ekki. Þeir gerðu það ekki vegna þess að þeir töldu hag sínum betur borgið við að gera það ekki.

Í þessari könnun, sem ég hvet hv. þingmenn til að skoða og birt var í gær á Evrópuþinginu, eru Grikkir nokkuð ánægðir með veru sína í Evrópusambandinu og þá stöðu sem þeir eru í núna en þeir voru sannarlega í slæmri stöðu, ekki ætla ég að gera lítið úr því.