149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir ræðu hennar. Hún ræddi nokkuð mikið um stöðuna í Evrópusambandinu á evrusvæðinu og takmarkanir á skýrslunni og fleira. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnst um þær tillögur sem koma fram í skýrslunni. Ég vil spyrja í fyrstu umferð sérstaklega um tillögu 3, um fjölgun ytri meðlima í peningastefnunefndinni, og í samhengi við það um tillögu 9, um aukinn stuðning við þessa ytri meðlimi. Vegna þess að það mundi væntanlega auka gagnsæi starfanna og breikka þann grunn sem peningastefnunefndin stendur á.

Einnig langar mig aðeins að inna hv. þingmann eftir áliti hennar á tillögu 10 og 11, annars vegar um aukna fræðslu og hins vegar um endurskoðun peningastefnunnar með reglubundnum hætti.