149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Við erum þá alla vega sammála um það. Að mörgu leyti eru þessar tillögur ágætar, og eftir því sem hv. þingmaður sagði; svo langt sem þær ná.

Þingmaðurinn rakti erfiða hagstjórn og hvað okkur hefði gengið erfiðlega frá því að við öðluðumst þetta efnahagslega sjálfstæði sem við þó höfum. En í skýrslunni er það sérstaklega rakið að mikilvægt sé að fara eftir reglum, það sé mikilvægt, sama hvaða gjaldmiðil við höfum eða sama hvaða stjórn er við völd, að farið sé eftir reglum. Mig langar að vita hvort þingmaðurinn sé ekki sammála mér í því.

Hins vegar langar mig aðeins að heyra í þingmanninum um hvað henni finnst um önnur innlend hagstjórnartæki en kannski beinlínis það sem verið er að tala um þarna. Væri hægt að beita þeim í ríkara mæli? Þá er ég að meina eins og (Forseti hringir.) samning við aðila á vinnumarkaði, samning stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði o.s.frv.