149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú vill svo til að ég er að flestu leyti sammála því sem hv. þingmaður fór yfir, um að evran sé einn af möguleikum okkar í stöðunni og að hugsanlega sé myntráð ekki endilega lausnin. Og jafnframt að núverandi fyrirkomulag verðbólgumarkmiðs með fljótandi gengi sé alls ekki lausn.

En ég hef gríðarlegan áhuga á að reyna að aftengja þessar deilur um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið, frá umræðum um peningastefnu. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort aðrar leiðir séu til í dæminu, t.d. þær leiðir sem Danmörk og Króatía og Tékkland og Serbía og ýmis önnur lönd hafa farið. Þar eru ýmist verðbólgumarkmið, en þó með einhvers konar stöðugleikafyrirkomulagi, eða þá einhvers konar binding, ýmist laus eða skríðandi. Kæmi slíkt til greina að mati hv. þingmanns sem leið til þess að reyna að (Forseti hringir.) laga það sem laga verður eða hægt er að laga í krónunni án þess endilega að þurfa að fara út í pólitíska deilu?