149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að það er áhugavert að skoða höfundana að þessari nýju skýrslu, sem kostaði á annan tug milljóna, og þeirra fyrri störf. Það má velta því fyrir sér hvort þetta séu réttu aðilarnir til þess að veita ríkinu ráðgjöf, en það er nú önnur saga. Að minnsta kosti koma þessa dagana ekki út skýrslur á vegum ríkisstjórnarinnar öðruvísi en að flokksbundinn Sjálfstæðismaður, fyrrverandi ráðherra eða hugmyndafræðingar flokksins séu annaðhvort höfundar eða meðhöfundar. Síðan má spyrja sig hvort stærsti hluti skýrslunnar hafi í raun ekki verið óþarfur þar sem fjallað er um sögu íslenskrar peningastefnu. Ágætisefni fyrir háskólanemendur en spurning hvort ríkissjóður eigi að borga fyrir það.

Árið 2015 skilaði nefnd um endurskoðun laga um Seðlabankann skýrslu. Nefndin var skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra. Ég verð að segja að ég tel þá skýrslu vera betri en þessa, bæði hvað efnistök og tillögur varðar. Peningastefnunefndin, eða starfshópurinn, leggur til víðtækar breytingar á hlutverki Seðlabankans. Því spyr ég: Er búið að bera þessa nýju skýrslu saman við skýrsluna um breytingu á lögum um Seðlabankann frá 2015? Ágætt væri ef hæstv. forsætisráðherra gæti svarað því og þá hvernig tillögurnar í nýju skýrslunni samræmast því sem þar kemur fram, hvað er í samræmi og hvað eru frávik frá fyrri tillögu.

Ég fagna því sérstaklega að starfshópurinn taki þá grundvallarafstöðu að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabankans, eins og fram kemur í tillögu 5 í skýrslunni. Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs hefur haldið uppi verðbólgu á Íslandi að mestu síðastliðin sex ár og hækkað verðtryggð lán heimilanna umtalsvert. Miðflokkurinn hefur barist fyrir því að húsnæðisliðurinn verði felldur út úr vísitölu neysluverðs og flutti flokkurinn m.a. frumvarp þess efnis á síðasta þingi sem ríkisstjórnarflokkarnir reyndu að koma í veg fyrir að greidd yrðu atkvæði um og felldu síðan þegar málið komst loks í þingsal.

Vonandi verður þessi skynsamlega afstaða starfshópsins til þess að ríkisstjórnin fari nú að opna augun í þessu mikilvæga máli og fari að tillögunni. Það verður þá til þess að bankinn beiti stýrivaxtatækinu ekki eins óhóflega og hann hefur gert. Miðflokkurinn hefur barist ötullega fyrir því að gegnsæi ríki í stýrivaxtahækkunum bankans og er flokkurinn þeirrar skoðunar að þær hafi í mörgum tilfellum verið óþarfar. Hefur ekki síst hv. þingmaður flokksins, Þorsteinn Sæmundsson, haldið því vel á lofti.

Í skýrslunni eru tvær tillögur sem lúta að markvissri beitingu stjórntækja Seðlabankans, tillögur 6 og 7. Tillaga 6 lýtur að mikilvægi þess að skapa ákveðnar reglur um gjaldeyrisinngrip Seðlabankans og horft er til nýsjálenska seðlabankans í þeim efnum. Ég tek undir það. Mikilvægt er að hafa skýrar reglur í þessum efnum, bæði gagnvart markaðsaðilum og almenningi.

Ákvarðanir um gjaldeyrisinngrip hafa hingað til einkennst af ógegnsæi og ákvörðunum í bakherbergjum Seðlabankans. Það er nauðsynlegt að fá að vita hvað bankinn er að hugsa þegar gjaldeyrisinngrip eru annars vegar. Ógegnsæi gerði það erfiðara fyrir markaðsaðila að leggja mat á hvað vakir fyrir bankanum, þá sérstaklega hvort hann vilji senda skilaboð inn á markaðinn og spila á væntingar eða hvort hann sé í raun tilbúinn að reyna að halda genginu uppi með handafli.

Einnig er með öllu óljóst hversu mikinn gjaldeyri Seðlabankinn er tilbúinn að leggja að veði til að styðja við krónuna, hversu reglulega, hvaða verðbil hann telur eðlilegt í viðskiptum með gjaldeyri, hvort hann telji krónuna of veika miðað við grunnþætti og hvort útflæðið sé í raun tímabundið o.s.frv.

Aðgerðir Seðlabankans í gjaldeyrisinngripum eiga ekki að vera sveipaðar þeim leyndarhjúpi sem þær hafa verið. Almennt held ég því að þessi tillaga sé til þess fallin að færa okkur betri væntingar til gjaldeyrismarkaðarins.

Síðari tillagan í beitingu stjórntækja Seðlabankans, eða tillaga 7, mundi hafa nokkuð afgerandi áhrif á stöðu mála í dag. Samkvæmt henni er lagt til að innflæðishöft skuli vera á forræði fjármálastöðugleikanefndar sem hluti af þjóðhagsvarúð og verði afnumin í skrefum. Þegar til framtíðar er litið gildi skýrar reglur um hvenær þeim sé beitt. Ef þessi tillaga yrði innleidd mundi það þýða að hin sérstöku höft á innflæði fjármagns, sem innleidd voru í júní 2016 til að koma í veg fyrir að vaxtamunarviðskipti gætu leitt til uppbyggingar kerfislegrar áhættu í þjóðarbúskapnum líkt og gerðist með myndun snjóhengjunnar svokölluðu eftir bankahrunið, yrðu afnumin.

Eins og höftunum er beitt í dag þurfa erlendir fjárfestar að binda 40% þess sem þeir flytja inn til landsins til að kaupa í skráðum skuldabréfum, víxlum útgefnum í krónum, auk hávaxtainnstæðna á fjárstreymisreikningum, á 0% vöxtum í eitt ár. Þessi tillaga er nokkuð róttæk að mínu mati og í ljósi þess að óvissa er fram undan í efnahagsmálum, ekki bara hér á landi heldur einnig erlendis, eins og á hlutabréfamörkuðum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er á þeirri skoðun að veik rök séu fyrir viðvarandi beitingu innflæðishafta. Sjóðurinn hefur eindregið lagt til að 40% bindiskyldan verði afnumin. Þeir telja að aðstæður séu ekki til staðar sem kalli á beitingu haftanna. Mér finnst þessi afstaða sjóðsins dálítið sérstök vegna þess að við þekkjum það hversu erfið snjóhengjan svokallaða reyndist okkur. Við viljum svo sannarlega ekki lenda í þeim ógöngum aftur.

Þó svo að vaxtamunurinn við útlönd hafi farið minnkandi þá megum við ekki gleyma því að við höfum mjög slæma reynslu af vaxtamunarviðskiptum. Afnám bindiskyldunnar gæti auk þess gert það að verkum að krónan gæti styrkst töluvert sem hefði þá aftur slæm áhrif á útflutningsgreinarnar eins og sjávarútveg og ferðaþjónustuna.

Í skýrslunni er rætt um þrjú skilyrði sem horfa skuli til áður en innflæðishöftum er beitt. Það er í sjálfu sér gott að hafa slík viðmið. Ég er þó þeirrar skoðunar að við verðum að stíga varlega til jarðar þegar kemur að afnámi innflæðishaftanna, gera það þá í litlum skrefum, en það er sjálfsagt að hafa skýrar reglur um það hvenær slíkum höftum skuli beitt.

Herra forseti. Á bls. 168 í skýrslunni er áhugavert innlegg um innflæðishöft sem sett voru á í Chile árið 1991–1998 þá sérstaklega hvað það varðar að tengja líftíma hafta við líftíma skuldabréfa, þ.e. bindingin fór minnkandi eftir því sem líftími skuldabréfa hækkaði. Þetta er áhugaverð leið og sanngjörn ef nota má það orð í þessu samhengi. Það er því spurning hvort þessi aðferð gæti verið fyrirmynd að fyrstu skrefum í afnámi innflæðishaftanna hér á landi.

Fram kemur í skýrslunni að einn af ráðgjöfum starfshópsins, Sebastian Edwards, sé einmitt frá Chile og hafi komið að fjármagnshöftunum þar í landi. Ég vil hrósa skýrsluhöfundum fyrir að leita til reynslumikilla manna í þessum efnum.

Fjórar tillögur eru í skýrslunni er lúta að ákvörðunarferli peningastefnunefndar. Ég vil aðeins staldra við tillögu 10 þar sem lagt er til að Seðlabankinn stuðli að aukinni fræðslu um peningastefnuna og gildi verðbólgumarkmiðs. Markmiðið er að auka skilning almennings á þeim möguleikum og takmörkunum sem eru til staðar og stuðla að aukinni sátt um stefnuna. Sú tillaga er mikilvæg að mínu mati. Það er einmitt mjög mikilvægt að auka skilning almennings í þessum efnum og ekki síst að ná aukinni sátt. En við þekkjum að ákvarðanir peningastefnunefndar eru ekki alltaf þær vinsælustu.

Ég tek undir það sem starfshópurinn segir um fræðsluhlutverk Seðlabankans, að bankinn hafi ekki sinnt því nægilega vel, hvorki varðandi peningastefnuna almennt né hlutverk Seðlabankans. Bankinn þarf að nútímavæðast í fræðslumálum, gera einföld myndbönd til að útskýra peningastefnuna, miðla upplýsingum á áhugaverðan hátt á vefsíðu sinni og gera fræðsluefni fyrir grunn- og framhaldsskóla. Það er svolítið merkilegt að það þurfi heilan starfshóp til þess að opna augu stjórnenda Seðlabankans fyrir því.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að gera þennan mikilvæga málaflokk, sem er á könnu bankans, skiljanlegan og áhugaverðan fyrir almenning. Seðlabankinn á að vera gegnsæ, opin og áhugaverð stofnun. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra tók undir það í ræðu sinni hér fyrr.

Tillaga 9 gerir ráð fyrir að auka gegnsæi við ákvarðanatöku nefndarmanna í peningastefnunefnd og að atkvæði nefndarmanna við vaxtaákvörðun verði birt opinberlega. Það er ágætt svo langt sem það nær. Í þessu sambandi er mikilvægast að ákvarðanirnar séu vel rökstuddar. Með því móti getum við fengið betri tilfinningu fyrir því hvaða atriði tekist er á um við vaxtaákvörðun. Það skiptir máli.

Ég styð þá tillögu starfshópsins að nefndarmenn skuli hafa ólíkan bakgrunn og að einn nefndarmanna komi úr atvinnulífinu. Breiður bakgrunnur nefndarmanna er til þess fallinn að draga úr einsleitum skoðunum nefndarmanna.

Í skýrslunni frá 2015 er að finna aðra tillögu um fyrirkomulag bankastjórnar en í skýrslu starfshópsins um peningastefnuna. Nýja skýrslan gerir ráð fyrir því að skipaðir verði tveir aðstoðarbankastjórar. Þeim verði því fjölgað um einn. Hér hefði verið gott að fá greiningu á þessum tveimur tillögum og hvað ríkisstjórnin hyggst leggja upp með í þessum efnum og hvers vegna.

Ég vil að lokum minnast aðeins á sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Sú sameining hefur verið lengi til skoðunar, eins og við þekkjum. Ég er í sjálfu sér ekki endilega sammála því uppleggi þó svo að ég sé sammála því að sameina eftirlitshlutverk á fjármálamarkaði. Eitt dæmi er lánamál ríkisins sem er hluti af Seðlabankanum og stór útgefandi og aðili að verðbréfamarkaði. Það hlýtur væntanlega að vera hugsað á hvaða hátt sameiningin mun hafa áhrif á eftirlitið með þessari deild, ef svo mætti að orði komast. Væntanlega verður það gert þannig að eftirlit á verðbréfamarkaði verður sér. Ég tel að hér geti verið um varhugaverða leið að ræða.

Hér kemur svo hlutverk Seðlabankans sem lánveitanda til þrautavara einnig til umræðu. Það mætti velta því fyrir sér hvernig það samræmist efitrlitshlutverkinu.

Herra forseti. Stóra spurningin varðandi þessa skýrslu er hvað ríkisstjórnin ætlar sér með hana. Verður farið í víðtækar breytingar á hlutverki Seðlabankans? Verður krónan áfram gjaldmiðill okkar? Verður bindiskyldan á möguleg vaxtamunarviðskipti afnumin? Ætlar ríkisstjórnin nú loksins að afnema húsnæðisverðið í vísitölunni?

Því verður hæstv. forsætisráðherra að svara. Maður kaupir ekki dýra skýrslu eins og þessa bara til þess að tala um hana.