149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði um höfunda skýrslunnar. En mig langar aðeins til þess að koma til varnar þeim höfundum þar sem orð hv. þingmanns voru dálítil árás á faglegar forsendur höfunda vegna pólitískra tengsla. Vissulega er gott að hafa þau til hliðsjónar en það þarf líka að vera á málefnalegum nótum.

Að því sögðu væri mjög gott að fá jafningjamat á svona skýrslu, svona „peer review“, sem gert er á vísindalegum grunni. Að auki vildi ég spyrja hv. þingmann um þá stefnu að fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs sem hann fór yfir í ræðu sinni, en núna er mjög mikill verðbólguþrýstingur en ekki mikill þrýstingur á hækkun húsnæðisverðs. Þannig að ef húsnæðisliðurinn er tekinn út úr vísitölunni á næstunni munu húsnæðislán hækka gríðarlega mikið út af almennri vísitölu án húsnæðisliðar.