149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:51]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Húsnæðisliðurinn hefur skipt verulegu máli hvað varðar húsnæðislán almennings. Við þekkjum það. Það hefur komið fram í umræðum og talað er um að þessi liður hafi hækkað húsnæðisskuldir landsmanna um á annað hundrað milljarða og rúmlega það. (Gripið fram í.)

Ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála hv. þingmanni þegar hann talar um að nú séu að verða breytingar með þeim hætti að húsnæðisliðurinn sé jafnvel jákvæður inni í vísitölunni vegna annarra hækkana. Ég get ekki alveg tekið undir það. En kjarni málsins er þessi, og við þekkjum þetta með húsnæðisliðinn: Á almenningur að gjalda þess að hér er t.d. lóðaskortur, hátt húsnæðisverð o.s.frv.? Á hann að gjalda fyrir það í húsnæðislánum sínum?

Ég tel að þetta sé mikilvægt. Það kemur fram í skýrslunni og ég fagna því mjög að höfundar hafi tekið svona afgerandi afstöðu. Og ég vona að ríkisstjórnin taki þetta (Forseti hringir.) sér til fyrirmyndar og framkvæmi það sem þarna kemur fram.