149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svolítið þannig að þegar krónan er sterk græða heimilin en fyrirtækin tapa og þegar krónan er veik græða fyrirtækin en heimilin tapa. Þetta er það fyrirkomulag sem við búum við á meðan þetta er sveiflukennt. Það er alveg fyrirséð að á meðan við höfum þetta fyrirkomulag, að reyna ekki að stöðva sveiflurnar eða alla vega tempra þær með einhverju móti, mun alltaf einhver á Íslandi vera að tapa á því ástandi sem kemur upp.

Öðru hverju munu þessar sveiflur fara fram úr sér og valda þannig ástandi að einhvers konar höft þarf. Þetta er eitt af því fáa sem er alfarið sannað í hagfræðinni. Mér finnst nauðsynlegt að hv. þingmenn, sem ætla að styðja að það sé haftafyrirkomulag og að auki ótrúlegt flökt á peningakerfinu, réttlæti það fyrir almenningi og jafnvel fyrirtækjum landsins (Forseti hringir.) hvers vegna þeim finnst þetta betra fyrirkomulag en að reyna að ná einhvers konar stöðugleika.