149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við búum í litlu hagkerfi eins og við þekkjum. Við verðum að horfa til reynslunnar. Það hefur verið gert í þessari skýrslu. Það er heilmikil sagnfræði í henni þegar kemur að peningamálum þjóðarinnar og það hefur svo sem ekki gengið nægilega vel. En við þurfum hins vegar að hafa þessi tæki sem ég nefndi, sérstaklega í ljósi reynslunnar. Ég get ekki séð að þessi höft séu það slæm fyrir almenning að réttlæta þurfi það sérstaklega fyrir almenningi. Þetta varðar fyrst og fremst þessi vaxtamunarviðskipti. Þau lúta ekki beint að almenningi, ef það má orða það þannig. (Gripið fram í.) — Jú, jú, það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni.

En í ljósi sögunnar og þess sem ég hef rakið hér vil ég ítreka það sem ég hef sagt, að ég er ekki sammála Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með það (Forseti hringir.) að afnema eigi þetta í einu vetfangi heldur reyna að gera þetta í einhverjum skynsamlegum skrefum. Það er minn málflutningur í þessu, svo að við tökum enga sérstaka áhættu í þeim efnum.