149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Við erum tekin til við að endurskoða peningastefnuna. Það er mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað í þessum sal og er líka ljóst að efnahags- og viðskiptanefnd mun skipta sér mjög af því hvernig mál þróast og taka framtíð peningastefnunnar til ítarlegrar umræðu og eigum við að segja rannsóknar.

Sú skýrsla eða þær tillögur sem hér liggja frammi og tillögur starfshóps um endurmat peningastefnunnar eru ítarlegar og ég hygg að við getum öll verið sammála um að vel hefur verið staðið að verki hjá starfshópnum þó að við kunnum að gera ágreining um einstaka tillögur eða niðurstöður sem þar eru birtar.

Ég tek það fram hér í upphafi að í öllum meginatriðum er ég sammála þeirri niðurstöðu sem starfshópurinn kemst að þó að blæbrigðamunur geti verið þar á. Ég er nefnilega sannfærður um að íslenska krónan, svo langt sem ég sé, ég vík kannski að því undir lok ræðunnar, er okkar gjaldmiðill og við fengum fullvissu fyrir því hér fyrir áratug eða svo hversu mikilvægt það er fyrir lítið hagkerfi eins og Ísland, hagkerfi sem er háð erlendum mörkuðum, háð sveiflum í náttúrunni, þó að það sé ekki annað, hafi fullveldi þegar kemur að peningamálum. Við höfum séð og skynjað hversu gríðarlegum erfiðleikum aðrar þjóðir, jafnvel stærri, lentu í sem ekki höfðu fullveldi í peningamálum sínum.

Ný og endurbætt peningastefna — það er frekar vert að tala um endurbætta peningastefnu — getur í mínum huga ekki eingöngu tekið mið af verðbólgumarkmiðum þó að það hljóti að vera eitt meginmarkmiðið, heldur hljóti verkefni Seðlabankans að vera fólgið í því að tryggja fjármálastöðugleika og stuðla að sæmilegu jafnvægi á gjaldeyrismarkaði og draga úr sveiflum. Þegar peningastefna er mótuð, hvort heldur það er til skamms tíma af Seðlabankanum eða til lengri tíma, þegar við tökum ákvörðun um þau verkfæri sem við viljum að Seðlabankinn hafi og þau markmið sem hann eigi að hafa, dreg ég enn og aftur fram hversu mikilvægt er að menn hugi að hvaða áhrif peningastefnan hefur á hverjum tíma á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Þegar raunvaxtastig á Íslandi er hærra en í helstu samkeppnislöndum þá dregur það úr samkeppnishæfni fyrirtækja hér á Íslandi. En það gerist annað og meira. Það verður auðvitað þannig að mikill vaxtamunur á milli Íslands og helstu viðskiptalanda getur leitt og hefur leitt til hættulegs ójafnvægis í greiðslujöfnuði og skapar í sjálfu sér fjármálalegan og efnahagslegan óstöðugleika. Við höfum fengið að kenna á því.

Nú liggur fyrir ákvörðun um að ríkisstjórnin ætli að stefna að því að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið undir einn hatt. Ég er sjálfur sannfærður um að það er skynsamlegt og hef lengi talað fyrir því. Starfshópurinn gekk ekki svo langt og vildi fyrst og fremst tryggja þjóðhags- og varúðarhlutverk Seðlabankans, að hann fengi það sem verkefni. Ég vil vitna í Ásgeir Jónsson, formann starfshópsins, sem segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að það sé grundvallaratriði að einn aðili beri ábyrgð á fjármálakerfinu og þjóðhagsvarúð. Undir það tek ég. Hann er hins vegar á því að Fjármálaeftirlitið eigi að líkindum að vera áfram með eftirlit.

Markmiðið er að öll þjóðhagsvarúðartæki séu á höndum Seðlabanka Íslands og þar með mun vægi fjármálastöðugleika aukast í starfsemi bankans. Með því verður ferlið frá greiningu til ákvörðunar skilvirkara og ábyrgðin algjörlega skýr.

Í sinni einföldustu mynd snýst peningastefnan um að prenta peninga, að vísu oft á rafrænu formi, eða ávísun á verðmæti. Röng nálgun, þegar tekin er ákvörðun um að prenta peninga, ef ég nota það einfalda orð, getur valdið miklum efnahagslegum skaða. En peningastefnan, alveg sama hve skýrt við mörkum hana og afhendum Seðlabankanum öll verkfæri sem til þarf, getur ekki ein og sjálf stutt við stöðugleika í efnahagslífinu. Það skiptir engu máli hvort við erum að tala um verðlag, gengi eða stöðuga atvinnu. Það er nefnilega svo að rekstur hins opinbera tekur 42% af landsframleiðslunni. Þannig leika fjármál hins opinbera og sérstaklega ríkisins, sem við berum ábyrgð á, lykilhlutverk í hagstjórninni. Útgjöld, skattheimta og lántökur ríkissjóðs hafa því veruleg áhrif, oft gríðarmikil, á efnahagslegan stöðugleika, verðbólgu og í raun hagvöxt sem slíkan.

Jafnvel þótt við náum að sameinast um að hrinda í framkvæmd öllum þeim 11 tillögum sem starfshópurinn leggur til mun það ekki duga óháð því hversu skynsamlegar og góðar þær tillögur eru. Það mun heldur ekki duga þó að Seðlabankinn í öllu sínu starfi fari eftir öllum reglunum, sem er auðvitað mikilvægt. Ef fjármálastjórn ríkisins og raunar alls hins opinbera styður ekki við peningastjórn landsins, eða a.m.k. vinnur ekki gegn henni, þá er ekki til mikils unnið við að marka nýja stefnu í peningamálum. Það er því miður þannig að ríkisfjármálastefnan hér hefur nær undantekningarlaust á undanförnum áratugum, skiptir engu máli hver heldur um budduna hjá ríkissjóði eða hverjir sitja í ríkisstjórn, veitt peningastefnunni litla hjálp. Raunar á stundum beinlínis unnið gegn henni.

Það er þess vegna sem Alþingi samþykkti lög hér árið 2015 um opinber fjármál þar sem við settum okkur skýrar fjármálareglur, m.a. afkomureglu, skuldareglu og skuldalækkunarreglu. Megingalli á þeim fjármálareglum er að íslensk stjórnvöld, við hér í þessum sal, tókum ákvörðun um að horfa til einfaldrar afkomureglu en ekki hagsveifluleiðréttrar afkomu. Þannig að afkomureglan sem við höfum innleitt veitir í raun lítið sem ekkert aðhald á uppgangstímum og það er agi sem við héldum og teljum okkur sjálf trú um að við séum að veita með þessum nýju fjármálareglum. Ég held því fram að í þessum reglum, og sérstaklega í afkomureglunni, sé fólgið falskt öryggi. Við þurfum að ræða það sérstaklega og í samhengi við það þegar við mörkum nýja stefnu í peningamálum.

Frú forseti. Ég sé að þegar maður ræðir jafn flókið viðfangsefni þá er tíminn yfirleitt styttri en maður heldur, þannig að ég ætla að skauta létt yfir það sem ég ætlaði að segja. Ég verð þó að vekja athygli á einu. Við stöndum á tímamótum. Ég hygg að fram undan séu svo stórkostlegar breytingar að allar okkar hugmyndir um peningastjórnun, um ríkisfjármál og hvernig við fjármögnum ríkissjóð, sé a.m.k. verið að skora á hólm. Fyrir 30 árum eða svo taldi ég að rök væru til þess að leyfa ætti samkeppni gjaldmiðla hér á Íslandi, að einstaklingar og fyrirtæki fengju að nota þann gjaldmiðil sem þeir vildu. Í raun gekk svo langt að ég taldi að ekkert væri því til fyrirstöðu að einkaaðilar fengju hreinlega að gefa út ávísun á verðmæti, kallað gjaldmiðill. Það er auðvitað skemmtileg hugmynd, algjörlega ópraktísk, en mjög skemmtilegt hugarflæði, en ég sé þetta er að gerast. Þetta er að gerast.

Það sem meira er: Samkeppni gjaldmiðla er þegar að eiga sér stað að vísu með takmörkuðum hætti, en hún er að eiga sér stað, m.a. í netverslun. Nú fer ég og kaupi mér bækur eða föt — að vísu er það aðallega dóttir mín sem kaupir sér föt, ég bækurnar — á erlendum vefsíðum og það er allt í erlendum gjaldmiðli. Ég meira að segja vel gjaldmiðilinn sem ég vil nota. Þetta er auðvitað samkeppni gjaldmiðla. Þetta mun færast í vöxt. Það sem meira er — áskoranirnar sem ríkissjóður og hið opinbera stendur frammi fyrir. Þetta hefur áhrif á það hvernig við öflum tekna. Þetta getur haft veruleg áhrif. Og þetta er ekkert bara áskorun sem er bundin við Ísland, þetta er alþjóðleg áskorun. Við höfum líka séð þessa áskorun kristalíserast þegar kemur að fjölmiðlum sem eiga í verulegri baráttu við að halda sínum hlut í samkeppni við alþjóðlega risa á samfélagsmiðlum sem greiða lítið eða ekkert í sameiginlegan sjóð á móti því sem íslenskir fjölmiðlar þurfa að gera þegar þeir selja auglýsingar.

Þetta eru miklar áskoranir — þetta er ekki að skella á okkur á morgun eða í næstu viku eða á næsta ári — en ég held að það sé gott fyrir okkur og hollt, þegar við ræðum um framtíð peningastefnunnar og þær góður tillögur sem hér liggja fyrir, að við höfum í huga að við stöndum á tímamótum. Ég held að hugmyndir okkar um fjármálakerfið, um banka og greiðslumiðlun, séu gamaldags, að við þurfum að átta okkur á því og reyna að teikna upp hvernig framtíðin er og hvernig við ætlum að bregðast við henni. Það er, held ég, skynsamlegt að hefja slíka umræðu hér og nauðsynlegt að við höfum í huga að jafnvel þótt við leysum það verkefni sem hér er, (Forseti hringir.) að móta nýja peningastefnu, verðum við líka að vera tilbúin að takast á við þær áskoranir sem eru alveg örugglega fram undan.