149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú er ég sammála ansi mörgu af því sem kom fram í góðri greiningu hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Hann greindi vandamálið, að ég held, mjög vel. Raunveruleikinn er sá að alþjóðaviðskipti og aukin alþjóðasamskipti gera að verkum að samkeppni er milli gjaldmiðla. Enn fremur hafa verið hugmyndir uppi mjög lengi um að opna meira á þessa samkeppni, t.d. hjá Bernard Lietaer, sem var sá sem fann upp það kerfi sem leiddi af sér að þessir fjölmörgu gjaldmiðlar gátu orðið að einni evru, en hann talaði alltaf um að það þyrfti mikið fleiri gjaldmiðla til að láta evruna ganga upp.

Í ljósi þessarar góðu greiningar og þeirrar afstöðu hv. þingmanns að krónan sé komin til að vera langar mig til að spyrja hann hvort það að vera með núverandi fyrirkomulag á fljótandi gengi og verðbólgumarkmið sé endilega betra en hinar leiðirnar. Mikið hefur verið rætt um myntráð. En nú er til hefðbundin gengisbinding. Það er til stöðugleikafyrirkomulag á bindingu. Það er til skriðbinding þar sem viðmiðunargengið þróast yfir tíma. Það er til skriðleg binding þar sem skriðfyrirkomulagið er notað, en gerðar eru handvirkar breytingar til að bregðast við ytri aðstæðum. Það er til lausabinding innan láréttra vikmarka. Það er til fullt af aðferðum sem við þekkjum. Þetta eru fimm aðferðir sem ég nefndi sem allar eiga það sameiginlegt að vera ekki myntráð.

Gæti einhver þessara aðferða verið hv. þingmanni þóknanleg, eða hugnast honum, til að krónan þurfi einmitt ekki að eiga við þau vandamál sem hann nefndi svo vel í greiningu sinni?