149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem ýmislegt í þessu. Ég er ekki endilega á því að evran sé lausnin. Ég held að evran sé ein hugsanlegra lausna sem við eigum að horfa mjög raunsætt á. En þetta fyrirkomulag sem ég nefndi er líka aðferð sem við eigum að horfa raunsætt á. Gallar myntráðs hafa verið nefndir. Þeir eru vissulega til staðar. Ég er ekki sannfærður um að þeir gallar séu yfirgnæfandi, en það má ræða það.

Það sem mér finnst merkilegast í þessari umræðu allri er að samkvæmt fræðunum og samkvæmt allri reynslu sem fólk hefur eru nákvæmlega tveir möguleikar í stöðunni, annaðhvort haftafyrirkomulag með einhverju móti eða einhvers konar eftirgjöf á sjálfstæðri peningastefnu. Þetta eru einu tveir möguleikarnir sem eru fyrir hendi. Þá velti ég fyrir mér, úr því að það er þrennt sem kemur til, frjálst flæði peninga, stöðugleiki í gengi og réttur til sjálfstæðrar peningastefnu — af þessu þrennu hlýtur það að vera mikilvægast fyrir Íslendinga að geta stundað óheft, algjörlega óheft, frjáls alþjóðleg viðskipti og að gjaldmiðillinn sé ekki á fleygiferð út um allt. Í raun skiptir sjálfstæði máli í vissum takmörkuðum tilfellum. Það eru til leiðir, svo sem skriðsbinding eða skriðlega fyrirkomulagið, sem taka á því að leyfa takmarkað sjálfstæði þegar þörf er á því til að bregðast við ytri aðstæðum en að öðrum kosti fylgja öðrum gjaldmiðlum og án þess að það sé mikil gengisviðskiptaáhætta.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki nauðsynlegt að fara einhverja slíka leið frekar en að við séum alltaf, héðan í frá og til frambúðar, bundin í höftum?