149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlakka mikið til að eiga frekari orðastað við hv. þingmann, bæði hér á eftir, vonandi, og líka í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Við erum báðir áhugamenn og höfum gaman af þessu.

Bara eitt: Krónan er ekkert eini gjaldmiðillinn í heiminum sem sveiflast. Ég ætla að benda á að á síðustu fjórum árum er munurinn á hæsta og lægsta gildi evru og dollara 33–34%. Munur á hæsta og lægsta gildi evru og sterlingspunds er 40%, það er svipað og munurinn á milli evru og íslensku krónunnar. Við skulum hafa þetta á hreinu.

Höft eða ekki höft: Sjálfstæð peningastefna með krónuna kallar í mínum huga á það að Seðlabanki Íslands, sem ber ábyrgð á fjármálastöðugleika — ber ábyrgð á því að reyna að draga úr gengissveiflum, halda stýrivöxtum við skynsamleg mörk og að ekki sé óeðlilegur vaxtamunur á milli Íslands og annarra landa, samkeppnislanda, sem eykur annars innflæði fjármagns — þarf að hafa í verkfærakistu sinni eitthvað sem heitir bindiskylda. En það er hins vegar ekki skynsamlegt fyrir Seðlabankann að beita því verkfæri nema nauðsynlegt sé. Það er ekki heilög skylda. Þó að verkfæri sé til í kistunni sem heitir sleggja þá þarf ekki að beita henni þegar lítill dúkkhamar dugar, hv. þingmaður. Við hljótum að vera sammála um það. Um það snýst þetta. Að verkfærin séu fyrir hendi, þeim sé beitt af skynsemi þegar á þarf að halda og þá mun peningastefnan virka betur. Við munum sjá aðeins stöðugri krónu, en hún mun áfram sveiflast í framtíðinni. Sá sem heldur því fram að hægt sé að taka upp einhvern gjaldmiðil, (Forseti hringir.) evru eða dollara, og heldur því fram að engar sveiflur verði í genginu er auðvitað að blekkja almenning. En þær sveiflur munu ekki taka mið af efnahagslegum aðstæðum hér á Íslandi. Það er munurinn á dollara, evru og íslensku krónunni.