149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:57]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir ræðuna og get sagt eins og hann að ég hlakka til að fjalla nánar um þetta efni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Þingmaðurinn ræddi dálítið um að fjármálareglurnar, sem settar voru 2015, væru góðar en það vantaði í rauninni aðhaldstæki á uppgangstímum, eða þyrfti meira aðhald á uppgangstímum.

Þá langar mig að ræða aðeins við þingmanninn um þjóðarsjóðinn fyrirhugaða, hvort hann sjái í honum eða í slíku fyrirbæri möguleikann á varúðartæki til lengri tíma. Að við notum þá þennan þjóðarsjóð til þess að verða eitt af akkerunum í íslensku efnahagslífi og hagkerfinu, svipað og Norðmenn hafa gert með þjóðarsjóð sinn, og að hann verði eitt af tækjunum í kistunni, eins og hv. þingmaður kom að áðan, til þess að grípa til á niðursveiflutímum til að bregðast við aðstæðum og minnki þá að vissu leyti þörfina á öðrum groddalegri verkfærum.