149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:03]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að þjóðarsjóðnum. Ég er alls ekki að segja að ekki eigi að búa til þjóðarsjóð. Ég skil rökin. Það eru mörg skynsamleg rök fyrir því að koma þessum sjóði á fót. Ég vil þá bara að allt regluverkið sé skýrt, hvenær megi nota hann o.s.frv., þannig að það séu ekki einhverjir embættismenn eða stjórnmálamenn sem vilja vera góðir sem ráði því. Ég velti því líka fyrir mér hvort ekki væri miklu skynsamlegra, vegna þess að fjármagnið í sjóðinn á fyrst og fremst að koma frá arðgreiðslum af nýtingu auðlinda, að við sendum öllum Íslendingum ávísun einu sinni á ári með því skilyrði að þeir leggi féð í séreignarlífeyrissjóð? Er það ekki bara fínt? Ég myndi a.m.k. vilja nefna það þegar við tökum til við að ræða um sjóðinn.

Varðandi Fjármálaeftirlitið. Ekkert er fullkomið. Ég er á því að skynsamlegt sé að sameina Fjármálaeftirlitið í heild sinni Seðlabanka Íslands. Ég skil hins vegar þau rök sem Ásgeir Jónsson hefur komið með. Í viðtali við Viðskiptablaðið gerir hann a.m.k. ekki miklar athugasemdir við þá fyrirætlun að sameina þessar tvær stofnanir í heild sinni. Ég held að það sé betra.

Aðalmálið er hins vegar varðandi öll þjóðhagsvarúðartækin að eftirlit með fjármálastarfseminni allri er svo gríðarlega mikilvægt. Þess vegna skil ég ekki að hægt sé að slíta það í sundur að þessi varúðartæki öll séu á hendi eins aðila, þess sem á að stýra peningastefnunni. Ég er sannfærður um að það sé skynsamlegra og styð því hæstv. forsætisráðherra eindregið í því að ná þessari sameiningu fram.