149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:06]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Nú erum við að ræða skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu og það verður eiginlega að byrja umræðu af þessu tagi á því að benda á að peningastefna Íslands hefur um árabil markast af alveg gríðarlegu óþoli fyrir staðreyndum. Ein staðreynd málsins er sú að samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu felur áframhaldandi notkun krónu með verðbólgumarkmið í því fyrirkomulagi sem við erum með í dag í sér áframhaldandi gjaldeyrishöft, ef ekki viðstöðulaust þá með reglulegri endurupptöku eftir að hagkerfi landsins hefur með einum eða öðrum hætti farið til fjandans.

Í öðru lagi hafa trúarbrögð gengið fræðum framar ansi lengi við val á gjaldeyrisfyrirkomulagi og það sést að hluta til í núverandi skýrslu þar sem eingöngu eru ræddir tveir valkostir af ótal mögulegum en jafnframt í fyrri skýrslu Seðlabanka Íslands þar sem nokkrum mikilvægum valkostum var sleppt. Þessir pólitísku leikir hafa verið spilaðir í áraraðir til að komast hjá því að þessir hlutir verði teknir fyrir af alvöru þó að ég trúi því að það sé ágætisviðleitni til þess núna hjá hæstv. forsætisráðherra.

Það eru hreinlega ýmsir mjög vel tengdir aðilar á Íslandi sem hafa verið að mokgræða á þessum óstöðugleika sem skaðar flest heimilin og flest fyrirtækin í landinu með einum eða öðrum hætti.

Í skýrslunni eru margar ágætar tillögur og sumar minna ágætar. Ég ætla að fara stuttlega yfir nokkrar þeirra, fyrst sjöundu tillöguna sem fjallar um innflæðishöft sem setur í rauninni pólitíska ábyrgð á höftum í hendur tæknilegra sérfræðinga í Seðlabankanum. Það kann að vera að einhverju leyti nauðsynlegt en engu að síður pínulítið hættulegt og við verðum að skoða það mjög varlega með hvaða hætti pólitísk ábyrgð flyst til í slíkum tilfellum. Svo er sú tillaga enn fremur ábending og staðfesting á því sem ég sagði, að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi og þeim tillögum sem fyrir liggja verða einhvers konar höft staðreyndin með því fyrirkomulagi sem við erum að tala um.

Í annan stað er spurning um vísitölu án húsnæðisliðar. Við það eru kostir og ókostir en ég geri athugasemd við að það sé gert eingöngu innan Seðlabankans við sína vaxtaákvörðun og því um líkt en sé ekki gert heilt yfir þannig að ef það á að gera þetta verður að gera það heilt yfir við verðbólgumat.

Fjórða tillagan varðar fjármálastöðugleika umfram verðstöðugleika. Það er svo sem afskaplega takmarkaður verðstöðugleiki á Íslandi þannig að þetta er kannski reyndin nú þegar, en það er ástæða til að spyrja hvort fjármálastöðugleiki sé raunhæft markmið í landi þar sem verðstöðugleiki er eins og hann er. Það er alveg tilfellið að við erum með hávaxtakerfi, við erum oft og tíðum með mikla verðbólgu og þetta er mjög tengt hvað öðru þannig að ég myndi vilja að farið yrði dýpra í þetta markmið.

Tillaga 6 er um umferðarljósakerfi að nýsjálenskum sið. Þetta er kannski pínu háðspunktur og ég vona að þetta verði ekki til þess að draga úr alvarleika málsins en mér finnst þurfa töluvert meira en umferðarljós til að stöðva peningakerfi sem ekur undir áhrifum hávaxtastefnu og vaxtamunarviðskipta frá stefnulausri geigun og árekstrum. Það er fínt að einhvers konar mælikvarðar séu til en við skulum ekki reiða okkur um of á þá í umhverfi þar sem forsendurnar eru þannig að það verði alltaf annað áfall.

Þarna eru svo sem aðrir punktar. Ég veit ekki hvort ég er í sjálfu sér sammála því að sameina t.d. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Það eru kostir og ókostir við það.

Mér finnst tillaga 8, sem snýst hreinlega um meira gagnsæi, alveg gríðarlega gott mál. Skýrslan byrjar svo sem á því að fleygja öllum öðrum valkostum en núverandi stöðu og myntráði út um gluggann og nota svo í rauninni næstu 220 blaðsíðurnar til að mæra óbreytt ástand, að vísu með einhverjum litlum tilfærslum, og það er gert með í versta falli vafasamri greiningu sem á köflum fer í mótsögn við sjálfa sig, en í staðinn fyrir að eyða tíma mínum í mikla gagnrýni á efnispunkta skýrslunnar ætla ég frekar að byrja á því að skoða örlítið aðra skýrslu sem sýnir glögglega hvers vegna þessi skýrsla er ekki nógu góð fyrir þessa umræðu.

Sú skýrsla er sem sagt gefin út árlega af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og heitir Annual Report on Exchange Arrangements and Exchange Restrictions, með leyfi forseta, þ.e. Ársskýrsla um gjaldeyrisfyrirkomulag og gjaldeyrisviðskiptatakmarkanir. Í henni er gerð grein fyrir flokkunarkerfi gjaldeyrisfyrirkomulags en þar innan eru tíu mismunandi almennar tegundir sem hverja má útfæra á ýmsa mismunandi vegu eftir smekk hvers lands fyrir sig. Þessar tegundir má skilja út frá peningastefnufyrirkomulagi annars vegar þar sem hægt er að nota annan gjaldmiðil eða aðra gjaldmiðla sem akkeri undir gjaldeyrismarkaði, að nota verðbólgumarkmið eins og Ísland gerir í dag eða setja markmið um peningamagnsþróun, svokallaða „Monetary Aggregates Target“, með leyfi forseta.

Undir hverju þessara peningastefnufyrirkomulaga má svo sjá ýmiss konar gengisfyrirkomulag, þ.e. fyrirkomulag á genginu sjálfu. Þar má t.d. taka upp annan gjaldmiðil einhliða, vera með myntráð, vera með hefðbundna gengisbindingu við annan gjaldmiðil, vera með stöðugleikafyrirkomulag á bindingu, vera með skríðandi bindingu þar sem viðmiðunargengi þróast yfir tíma, vera með skriðlega bindingu þar sem skriðfyrirkomulag er notað en gerðar eru einhverjar handvirkar breytingar á gengi til að bregðast við ytri aðstæðum og svo lausbindingu innan láréttra vikmarka.

Það er áður en við komum síðan að öðru stýrðu fyrirkomulagi ásamt fljótandi og frífljótandi gengi, en munurinn á síðastnefndu tvennu er fyrst og fremst magninngrip sem vænta má frá Seðlabankanum hverju sinni.

Frú forseti. Eins og sést á hraðyfirferð yfir þessa löngu skýrslu, sem ég mæli með að fólk kynni sér, er þetta mjög viðamikið flokkunarkerfi og í skýrslunni er hvert einasta land heims greint niður eftir þessum tegundum og skoðuð þróun og breyting á stefnu yfir tíma. Það sést að mikill fjöldi möguleika er aðgengilegur. Ef við berum þetta saman við þessa skýrslu um framtíð peningastefnu Íslands sést að í henni fer engin raunveruleg greining fram á þessum valkostum.

Í markmiðum skýrslunnar segir, með leyfi forseta:

„Aðrir valkostir við peningamálastjórnun skulu greindir og metnir. Þar með teljast útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs. Litið verði til reynslu annarra landa af svipuðu fyrirkomulagi hvað það varðar og tilhögunin útfærð að því marki sem þarf til að bera hana saman við niðurstöðuna úr lið 2.“

Svo segir á bls. 8 í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Ef gengið er út frá þeirri forsendu að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslendinga í nánustu framtíð hefur þjóðin í raun aðeins tvo kosti:

A. Að halda áfram með núverandi fyrirkomulag sem felur í sér að fylgja sjálfstæðri peningastefnu undir merkjum verðbólgumarkmiðs.

B. Að hætta að reka sjálfstæða peningastefnu og festa gengi krónunnar varanlega niður með myntráði sem felur í sér að öll innlend seðlaútgáfa er tryggð með erlendum gjaldeyri.“

Þessi yfirlýsing er lögð fram á bls. 8 án þess að nokkur röksemdafærsla fylgi með því hvers vegna eingöngu þessir tveir valkostir eru raunhæfir. Svo er aðeins handveifað í áttina að því að aðrir valkostir séu fyrir hendi á ýmsum stöðum í skýrslunni en aldrei tekist á við þá sem raunverulega valkosti. Með því að hunsa alla þessa valkosti sem upphafspunkt og hrekja síðan myntráðið á grundvelli hættu á gengismunarviðskiptum byrjar nefndin á því að gefa sér þá niðurstöðu að ekkert annað fyrirkomulag en núverandi fyrirkomulag sé mögulegt.

Ég er í stuttri ræðu og hef ekki mikinn tíma til að fylla upp í þessar stóru aðferðafræðilegu gloppur en það er kannski þörf á því að einhver geri það. Í staðinn skulum við skoða aðeins það fyrirkomulag sem Ísland hefur í dag í samhengi við önnur lönd með sambærilegt fyrirkomulag. Listinn er áhugaverður, þar er að finna fjöldann allan af löndum sem hafa átt við að stríða hverja peningakrísuna á fætur annarri, svo ekki sé talað um langvarandi heljarflökt á bæði stjórnkerfum sínum og peningakerfum. Þá erum við að tala um Albaníu, Argentínu, Armeníu, Brasilíu, Kólumbíu, Georgíu, Gana, Gvatemala og Ungverjaland og þetta er bara listinn fram að Íslandi í stafrófsröð á ensku, engu er sleppt.

Á listanum finnast svo sem lönd með öflug og stöðug hagkerfi, þau heita Suður-Kórea og Nýja-Sjáland, en öll hin löndin á listanum sem eru með sama fyrirkomulag og við erum með í dag, þ.e. fljótandi gengi með verðbólgumarkmiði, hafa glímt við þrálát vandamál með peningakerfi sín. Það er rétt athugað að í sjálfu sér er ekkert að þessum löndum sem ég nefndi, ég hef heimsótt helming þeirra og þau eru bara mjög fín, mig langar til að fara þangað aftur, en það er ekki hægt að segja af neinni alvöru að peningastefna þessara landa sé nokkuð til að hrópa húrra fyrir, því miður. Þau hefðu í raun öll gott af því að eiga þetta samtal sem við eigum núna og helst án þess að vera með skýrslu frá nefnd sem slær alla aðra valkosti út af borðinu áður en leikurinn hefst.

Gott og vel, hvað eigum við þá að gera? Það hefur verið sagt að íslenska krónan sé minnsti fljótandi gjaldmiðillinn og búi þar af leiðandi við minna höggþol en aðrir gjaldmiðlar sem hafa fleiri notendur og meiri verðmæti á bak við sig þar sem alfagildi Pareto-kúrfunnar sem lýsir dreifingu fjármagns er lægra og stöðugleikinn meiri eftir því. Þetta er svo sem líka sagt án þess að takast raunverulega á við fílinn í herberginu sem kemur þó fram í rammagrein 5 í skýrslunni og er í kjölfarið hunsuð. Þar er tilvísun í grein eftir Hélène Rey, prófessor við London Business School, um skýrslu sem hún skrifaði. Þar færir hún rök fyrir því að þjóðir hefðu í rauninni aðeins tvo valkosti en ekki þrjá í gengismálum, með leyfi forseta:

„Í raun og veru væri hægt að tala um ósamrýmanlega parið þar sem annars vegar væri fullkomið frelsi í fjármagnsviðskiptum og hins vegar sjálfstæði í peningamálum. Þessi tvö gætu aldrei átt næturstað saman á neinum stað.“

Það val að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu felur í sér val á fjármagnshöftum. Það er í rauninni það eina sem skiptir máli í þessu samhengi. Við erum að velja fjármagnshaftafyrirkomulag með því að viðhalda núverandi peningastefnu, alveg óháð því hversu margar ágætar breytingar eru gerðar á því hvernig við stýrum síðan þessu með einstökum hagstjórnartækjum. Mörg lönd með sambærileg hagkerfi við okkar hafa valið aðrar leiðir en við. Sumum þeirra hefur tekist vel til en öðrum illa. Eins og kom fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar er engin galdralausn til, en það er alveg ljóst að höft eru ekki neitt sem íslenska hagkerfið þolir til lengdar. Þess vegna erum við alltaf að leitast við að komast úr þeim og alltaf þegar við komumst úr þeim lendum við í sömu krísu aftur.

Það að velja óbreytt ástand er að velja fjármagnshöft. Þeir sem styðja óbreytt ástand, þ.e. óháð einhverjum minni háttar lagfæringum, þurfa að útskýra hvers vegna þeir velja fjármagnshöft fram yfir frjáls viðskipti. Skýrslan útilokar aðeins einn af fjölmörgum kostum sem fela ekki í sér fjármagnshöft. Hún gerir það á frekar hæpnum forsendum og því myndi ég segja að skýrslan væri ófullnægjandi innlegg í þessa umræðu þrátt fyrir ýmsar ágætar tillögur.

Þessu tengt er nauðsynlegt að við hættum að láta þá vitleysu að peningastefnan okkar snúist um sjálfstæði versus inngöngu í Evrópusambandið vera hluta af umræðunni. Það er í besta falli léleg einföldun. Það er almennt viðurkennt í fræðunum í dag að það er eingöngu hægt að velja á milli hafta og myntbandalaga með einu eða öðru móti, myntbandalög í breiðum skilningi þar sem einhvers konar lausabindingar eru til í dæminu.

Almenningur á betra skilið en þessa tilteknu einföldun á umræðunni. Í ljósi þessa held ég að það sé best að kalla eftir nýrri skýrslu sem bindur sig ekki við þau trúarbrögð að krónan verði að vera til staðar og bindi sig ekki heldur við þau trúarbrögð að myntráð sé eini valkosturinn og leysi að sama skapi raunverulega það vandamál sem fyrir liggur (Forseti hringir.) vegna þess að fjöldinn allur af eftirsóknarverðum hagfræðilegum möguleikum er til staðar ef við kjósum að falast eftir þeim.