149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:21]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu. Ég tek ekki undir allt enda held ég að hann hafi ekki ætlast til þess. Hv. þingmaður gagnrýnir höfundana fyrir að þeir skuli í rauninni meta það svo að það séu bara tveir kostir til, annaðhvort sjálfstæð peningastefna eða að festa gegnið við einhverja mynt eða myntkörfu með myntráði o.s.frv. Ég velti fyrir mér: Var það hlutverk nefndarinnar samkvæmt erindisbréfi? Það er alveg skýrt að starfshópurinn átti að ganga út frá þeirri forsendu að krónan yrði áfram gjaldmiðill þjóðarinnar. Ég geri mér grein fyrir því að það er einhver hópur hér, þingmanna, sem telur að krónan eigi ekki að vera framtíðargjaldmiðill. Ég er ekki í þeim hópi. Ég fullyrði að mikill meiri hluti þingmanna og mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á því að við höldum fullveldi okkar í peningamálum.

En að því sögðu velti ég því fyrir mér hvort hv. þingmaður meti það svo að það sé pólitískur vilji og það sé vilji og almennur skilningur hjá almenningi að taka annaðhvort upp fastgengisstefnu eða að við tökum upp annan gjaldmiðil og greiðum þann kostnað sem því fylgir. Sá kostnaður er að sá gjaldmiðill sem við notum (Forseti hringir.) mun ekki taka breytingum eftir aðstæðum hér í efnahagsmálum, (Forseti hringir.) hvorki á vinnumarkaði né annars staðar.