149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:24]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að það er skýrt, meira að segja í því sem ég las upp úr skýrslunni áðan, að samkvæmt markmiðunum átti að greina fleiri möguleika en bara þessa tvo, en það var síðan ekki gert. Það eru markmið sem, eins og ég skil þetta og eru nefnd í skýrslunni, hafi komið frá hæstv. forsætisráðherra, Engu að síður þá voru þetta markmiðin sem voru sett fram og þeim var ekki fylgt.

Þá kemur upp spurningin hvort hægt sé að segja að Danmörk, Króatía, Norður-Makedónía, Tékkland og Serbía séu lönd sem hafa fórnað sínu sjálfstæði. Ég get svo sem nefnt ansi mörg önnur lönd, ég er með ágætislista og ágætistöflur fyrir framan mig sem sýna að hér er um að ræða lönd sem eru einmitt ekki öll með fastgengi, eingöngu Danmörk af þeim sem ég nefndi, sem er með fasta bindingu milli danskrar krónu og evru. Öll hin eru með eitthvert annað fyrirkomulag, einhvers konar stöðugleikafyrirkomulag. Ég er ekki á því að þessi lönd hafi fórnað sjálfstæði sínu en ég er nokkuð sannfærður um að þau hafi kosið einhvers konar stöðugleika í sínum gjaldmiðilsmálum.

Hvort almenningur sé endilega á því og hvort hann styðji það að taka áhættuna með þetta, þá veit ég það ekki, en ég veit að almenningur hefur ekki heldur verið spurður álits á því að taka þá áhættu að vera með hávaxtastefnu og mikið gengisflökt sem leiðir af sér mjög hátt verðlag og þar fram eftir götunum. Það er eitthvað sem við ættum að spyrja almenning um, það er ærin ástæða til.