149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:26]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum hafa í huga, eins og ég held að ég hafi vikið að í ræðu minni áðan, að það er ekki eins og íslenska krónan sé eini gjaldmiðillinn í heiminum sem sveiflast. Það gera allir gjaldmiðlar og ekki síst evran. Ef við förum alveg aftur til þess tíma þegar evran var tekin upp þá voru sveiflurnar alveg gríðarlegar, það nemur ekki 30%, ég hygg að það sé á bilinu 70–80% gagnvart dollar.

Látum það liggja á milli hluta. Það sem ég er að reyna að draga fram er að ef menn ætla að fara einhverja leið sem felur í sér fastgengi með myntráði eða að taka upp annan gjaldmiðil, sem ég er alveg til að ræða, þá verða þeir líka að vera heiðarlegir í því að benda almenningi á það að jú, kostirnir eru vissulega fyrir hendi en það eru ókostir. Ókostirnir eru m.a. að við þurfum að takast á við niðursveiflu í efnahagsmálum og við þurfum að hafa þrek til þess í gegnum m.a. vinnumarkaðinn, í formi lægri launa, skerts kaupmáttar og minni atvinnu.

Þessi þjóðarsál okkar Íslendinga er einhvern veginn þannig, ef ég skynja hana rétt, að það er eitt sem við þolum illa og alls ekki og það er mikið atvinnuleysi. Ef menn ætla að fara þessa leið, þá skulu þeir líka benda á að þetta er kostnaður sem við verðum — ég er ekki að segja að hann falli til — að vera tilbúin til að greiða ef við ætlum að fara einhverjar slíkar leiðir.

Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann hver hann telji að markmið peningastefnunnar eigi að vera.