149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski rétt að árétta enn einu sinni að það er rangt að stilla þessu upp sem andstæðum, annars vegar fastgengisstefnu og hins vegar fljótandi gjaldmiðli. Það eru ótal aðrir valkostir, ég nefndi fimm.

Það að tala um kostnaðinn af því að vera með einhvers konar fastgengisfyrirkomulag eða skriðgengisfyrirkomulag eða hvað sem er, er algjörlega réttmætt. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því að það er réttmætt að skoða kostnaðinn en þá verðum við jafnhliða að skoða kostnaðinn af því að vera með þetta fyrirkomulag með sinni hávaxtastefnu sem kostar íslensk heimili fleiri tugi milljarða heilt yfir. Hvað flöktið varðar, jú, að sjálfsögðu flöktir evran, að sjálfsögðu flöktir dollarinn og allir þessir ágætu gjaldmiðlar sem ég er með hérna fyrir framan mig og þeir flökta gagnvart hver öðrum. Sumir flökta ekki gagnvart ákveðnum öðrum gjaldmiðlum og það er það sem bindingin felur í sér.

Singapúríski dollarinn flöktir t.d. ekki gagnvart nokkrum gjaldmiðlum eða a.m.k. innan ákveðinna banda. Það er flökt en spurningin er: Hversu hratt gerist þetta flökt, á hvaða forsendum gerist það og hver tapar á því? Ég ætla að fullyrða hér að núverandi fyrirkomulag með krónuna veldur því að flöktið bitnar alltaf á heimilunum og fyrirtækjunum til skiptis og það fyrirkomulag gerir það að verkum að hraðar breytingar eins og við höfum séð núna síðasta mánuðinn gera að engu allan fyrirsjáanleika í hagkerfinu.

Ég vil þá frekar geta treyst á annan gjaldmiðil sem er stærri og hreyfist fyrir vikið hægar gagnvart öðrum gjaldmiðlum, ekki endilega að við tökum hann upp, ég er ekki endilega talsmaður þess að við tökum bara upp evru eða eitthvað svoleiðis, en notum aðferðirnar sem eru til staðar til þess að fá sem allra bestu niðurstöðu fyrir fólkið í landinu. Það á að vera markmið peningastefnu.