149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu og endurmat á ramma peningastefnunnar sem unnin var af starfshópi sem var skipaður af fyrri ríkisstjórn í mars 2017. Hann skilaði þessari ágætu skýrslu í júní sl.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir skýrsluna og þakka fyrir framsögu hæstv. forsætisráðherra og umræðuna hér. Ég tel hana afar mikilvægt innlegg og nauðsynlegt fyrir þær mögulegu breytingar sem við munum væntanlega sjá í frumvarpi. Hægt er að nýta tillögur úr þessari skýrslu til að betrumbæta peningastefnuna.

Ég vil síðan segja, ekki síst í ljósi umræðunnar hér um gjaldmiðilinn sem ég skil vel, að það kemur auðvitað skýrt fram í skýrslunni að verkefni starfshópsins var að vinna að endurmati en á þeirri forsendu að gjaldmiðill Íslendinga í nánustu framtíð yrði íslenska krónan, kannski ólíkt þeirri góðu skýrslu Seðlabankans frá 2012, þar sem niðurstaðan var að íslenska krónan yrði hér alla vega í náinni framtíð. Nú eru sex ár liðin og ég hef oft sagt að það væri kannski kominn tími á að taka framhald af þeirri skýrslu og sjá hvað hefur gerst á þessum sex árum.

Það er nú þannig með íslensku krónuna að það eru ekkert mjög margir valmöguleikar í raun og veru sem við ræðum hér. Það speglast mjög vel í umræðunni, það eru þessir tveir kostir, að vera með sjálfstæða peningastefnu eða ekki, sjálfstæða peningastefnu með einhvers konar fljótandi gengi og frjálsa fjármagnsflutninga, inn- og útflæði. Við höfum reynt það. Það er kannski auðvelt að standa hér og segja að við ráðum ekki við það af því að í henni var kannski fólginn aðdragandi þess að hér féll allt fjármálakerfið.

Síðan er hitt sem við erum með, að festa eða vinna með stöðugt gengi og nýta m.a. verkfæri hafta með aukna áherslu á þjóðhagsvarúð. Það er á þeim grundvelli sem þessi skýrsla er sett fram. Allar þær tillögur sem hér koma fram eru á rökum reistar, þær eru studdar rannsóknum og fengnir erlendir ráðgjafar til þess að fá utanaðkomandi þekkingu á þeim sviðum þar sem þarf að færa rök fyrir þeim tillögum sem settar eru fram. Ég get því ekki staðið hér og rengt þessar tillögur. Mér finnst þær margar hverjar mjög góðar og gæti svo sem fært rök fyrir því eins og gert er ágætlega í skýrslunni með þeim flestum.

Ég held að þessi umræða um stöðugleika, það að gefa sjálfstæðu peningastefnuna upp á bátinn og fara annaðhvort í myntbandalag eða myntráð sé skiljanleg í ljósi styrkingar íslensku krónunnar undanfarin misseri og veikingar hennar síðasta árið, síðustu daga, í einhvers konar leit að aðlögun, leit að nýju jafnvægi. Við höfum fylgst með því að krónan hefur gefið eftir gagnvart t.d. evru og veikst sl. mánuð um 5% og menn klóra sér svolítið í kollinum yfir því hvað sé akkúrat að gerast núna. Greiningaraðilar benda hins vegar á að stoðirnar séu í lagi. Það er afgangur af viðskiptajöfnuði. Skuldastaða er sterk og það er myndarlegur gjaldeyrisvaraforði. Greiningin liggur því ekkert á borðinu. Það er talað um einhvers konar stemningu og við getum þannig alveg ímyndað okkur að umræðan sé á þeim nótum hér um það hvert við erum að fara.

Hvað sem því líður þá ræðum við um þessa skýrslu á þeim grunni, og það ætla ég að gera áður en ég fer í einstaka tillögur, að íslenska krónan verði gjaldmiðillinn í nánustu framtíð. Út frá þeirri forsendu var verkefni starfshópsins að meta íslenska efnahagsstefnu síðustu áratugi með öðrum hætti en gert hefur verið. Í öðru lagi átti hann að meta þær umbætur sem gera mætti á stefnunni. Í þriðja lagi að skoða aðra valkosti, svo sem hefðbundið fastgengi eða fastgengi með myntráði eins og ég kom inn á. Að lokum er gerð einhvers konar samanburðargreining á þessum valkostum með tilliti til hagstjórnar, aðra þætti hennar og markmið um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika.

Ég ætla að taka undir með þeim sem hér hafa komið inn á það í umræðunni að það sem okkur hefur ekki tekist hingað til er að mynda einhvers konar stuðning ríkisfjármála við peningastefnu og að þetta styðji hvert annað þegar við horfum á hagkerfið í heild og efnahagslegan stöðugleika. Í peningastefnunni horfum við fyrst og fremst á verðstöðugleika. Þar hefur tekist ágætlega til á síðustu árum. Á undanförnum fjórum árum hefur okkur tekist með inngripum, með höftum, að viðhalda stöðugleika, ekki farið yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið, en á sama tíma höfum við auðvitað notið góðs af því að við höfum beinlínis flutt inn verðhjöðnun.

Við stigum þó skref áfram í ríkisfjármálum 2015. Það sem er kannski það athyglisverðasta í þessari skýrslu er að þar er dregið fram þetta agaleysi sem við höfum haft í efnahagsmálum og við höfum ekki fylgt leikreglum. Það skipti kannski ekki öllu máli hvaða leikur sé valinn, heldur sé mikilvægast að fylgja leikreglum. Í lögum um opinber fjármál sem við samþykktum 2015 og vinnum eftir í dag eru fjármálareglur, þar eru skilyrði og viðmið. Það eru einmitt leikreglurnar og markmiðið að við förum að vinna á þessum nótum sem m.a. er boðað hér í skýrslunni. Það eru engar töfralausnir í peningastefnu, það er rétt sem komið hefur fram. En þegar við erum búin að velja leikinn þá er mikilvægt að við fylgjum reglunum.

Ég held að það hafi verið afar mikilvægt skref sem við tókum með lögum um opinber fjármál þegar kemur að fjármálareglunum. Þar er afkomuregla. Þar er skuldaregla um 30% viðmið og þar er skuldalækkunarregla ef við náum ekki þessum markmiðum.

Það kom hins vegar fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar að á uppgangstímum þegar við höfum tilhneigingu til að auka ríkisútgjöldin, víkka ramma ríkisútgjaldanna, finnum við kannski frekar fyrir því að þá skorti aðhaldið. Það hefur verið rætt um að við ættum til viðbótar þessum reglum að setja reglu sem væri einhvers konar útgjaldaregla. Ég held að það sé eitthvað sem við verðum að ræða þegar við horfum á þróun ríkisútgjaldanna.

Mér finnst jafnframt mikilvægt, virðulegi forseti, að reifa þessar forsendur áður en ég ræði hina eiginlegu niðurstöðu skýrslunnar því annars hættir manni við að fara um víðan völl eins og vafalítið skýrsluhöfundum hefði hætt til ef þeir hefðu haft mjög vítt verkefni fyrir höndum.

Við höfum lengi, allt frá fullveldi, búið við óstöðugleika. Það má hrósa mörgu í þessari ágætu skýrslu, m.a. rammagreinum, hún gefur ágætt sögulegt yfirlit um hagstjórnina sömuleiðis. Það kemur fram í skýrslunni að ólíkt öðrum Norðurlandaríkjum sem hafa glímt við svipuð vandamál þá hefur okkur ekki auðnast að hafa þann aga og þá sátt sem þarf til þess að ná tökum á þessum vanda, óstöðugleikanum. Þeim hefur tekist betur upp á þessu sviði þrátt fyrir ólíka nálgun á vandann. Það er niðurstaða starfshópsins að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að við getum rekið sjálfstæða peningastefnu, að því gefnu að við virðum leikreglur og um þær náist sátt. Það er kannski verkefnið, þessa sátt skortir.

Engu að síður hefur okkur tekist á síðustu árum eins og ég sagði að ná hér verðstöðugleika og tilheyrandi kaupmáttaraukningu. Vextir á sama tíma hafa farið lækkandi. Þennan árangur er mikilvægt að varðveita. Ég talaði hér um peningastefnu og ríkisfjármálin. Svo er það vinnumarkaðurinn sem myndi kannski fylla þann þríhyrning. Þessi sátt mun ekki nást nema í samhengi við vinnumarkaðinn. Við höfum á liðnum árum náð að halda verðbólgu í skefjum þrátt fyrir hvað nafnlaunahækkanir hafa verið miklar og umfram viðurkennd þolmörk peningastefnunnar eins og kemur ágætlega fram í skýrslunni. Verkefni kjarasamninga í þessu samhengi er því ekki lítið. Stöðugleiki á vinnumarkaði er algjör undirstaða verðstöðugleika.

Myntráð slær starfshópurinn út af borðinu, eins og reyndar kom líka fram í skýrslu Seðlabankans 2012. Hann telur það fela í sér hreinlega of mikla áhættu fyrir fjármálastöðugleika og erfitt yrði við slíkar kringumstæður að tryggja efnahagslegan stöðugleika þar sem vextir ráðast á frjálsum markaði eftir framboði og eftirspurn eftir lausafé. Íslenskar fjármálastofnanir stæðu eftir án lánveitinga til þrautavara, eins og sagt er í skýrslunni. Þannig myndi upptaka myntráðs, að áliti starfshópsins, skapa óásættanlega áhættu fyrir fjármálastöðugleika og mælir hann ekki með þeim kosti fyrir Ísland.

Tillögurnar eru 11 talsins í skýrslunni og eru nokkuð vel fram settar. Það má alveg hrósa fyrir það. Það má segja að þjóðhagsvarúð og umgjörð hennar og mikilvægi hafi orðið ljóst þegar við upplifðum hremmingar hrunsins. Fyrst og fremst er um að ræða tillögur sem snúa að umgjörð, skipulagi og ábyrgð þjóðhagsvarúðar og leggur starfshópurinn til að fjármálastöðugleikanefnd komi í stað fjármálastöðugleikaráðs.

Þetta finnst mér einna athyglisverðast í þessu. Við höfum þó lært eitthvað, það er mikilvægt. Tíminn er fljótur að fara þegar við ræðum þessi mál, en ég ætlaði að koma hér inn á að það er grundvallarafstaða starfshópsins að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, en það ber þó að taka fram að starfshópurinn telur að skoða eigi það vel og vandlega.

Ég dreg þetta fram hér, virðulegi forseti, vegna þess að þessi tillaga starfshópsins rímar fyllilega við þingsályktunartillögu okkar Framsóknarmanna sem samþykkt var í þinginu 8. maí sl., um mat á forsendum við útreikning verðtryggingar. Ég tel að þessi samþykkt Alþingis sé mikilvæg og niðurstöður skýrslunnar, tillögur og rannsóknir sem hún bendir á varðandi forsendur við útreikning verðtryggingar og húsnæðisliðinn í vísitölunni, þessi afstaða hennar, ætti að vera gott veganesti og falla fullkomlega að þeirri frumvarpsvinnu sem er fram undan. En þessi umfjöllun leiðir mann að öðru og stærra máli sem er víðtæk verðtrygging húsnæðislána, en um 80% af heildarskuldum eru í verðtryggðum lánum. Það kemur (Forseti hringir.) fram í þessari skýrslu að miðlun stýrivaxta er mjög veik í (Forseti hringir.) verðtryggðu láni.