149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Ég velti svolítið fyrir mér þeim leikreglum sem tíðrætt er um í skýrslunni og þeim lærdómum sem draga má. Ég og hv. þingmaður sitjum saman í fjárlaganefnd undir hans forustu og þar er kannski mesti áfellisdómurinn yfir okkur í gegnum tíðina að ríkisfjármálin hafa magnað upp hagsveiflur frekar en að jafna þær út árum og áratugum saman. Það er kannski það sem ég hef mestar áhyggjur af, að við erum að endurtaka þann leik í þessum töluðu orðum í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum nú í fjárlaganefnd og eigum að taka til afgreiðslu fyrir áramótin.

Er hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar sammála mér í því að þetta hljóti að vera eitt af fyrstu skrefunum? Af því leikreglurnar skipta mjög miklu máli. Ef við ætlum að láta þessa brothættu mynt okkar ganga upp sem tæki okkar í peningastjórn (Forseti hringir.) verða stjórnvöld að leiða alla aðra aðila áfram með góðu fordæmi um að virða þær leikreglur sem virða þarf, sem ekki er verið að gera nú.