149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er kannski kjarni málsins og vandinn, að við erum fyrst og fremst að auka ríkisútgjöldin í rekstri ríkisins en ekki fjárfestingum. Hér fjöllum við um samgönguáætlun. Færa mætti góð og gild rök fyrir því að á næstu árum kunni að vera góð tækifæri til þess að auka verulega fjárfestingar í samgöngum, innviðum, út af kólnandi hagkerfi. En við höfum ekkert fjárhagslegt svigrúm til þess. Á sama tíma erum við að auka ríkisútgjöld á hvern íbúa hér á landi úr 2,2 milljónum í 2,7 eða 2,8 milljónir, held ég, á föstu verðlagi. Það er mesta aukning í ríkisútgjöldum sem ég hef séð á undanförnum tveimur áratugum á jafn skömmum tíma. Það er ofan í það ástand að Seðlabanki viðheldur háu vaxtastigi á sama tíma og örva þyrfti hagkerfið og gefa þyrfti atvinnulífinu smáslaka í vaxtastigi. Það eru þær leikreglur sem maður saknar að aldrei sé hægt að virða. Mér sýnist eiginlega niðurstaða skýrslunnar vera sú (Forseti hringir.) að af því að vinnumarkaðurinn og ríkisfjármálin ætla ekki að virða þessa reglur þurfum við krónu sem getur tekið á sig ábyrgðina með því að falla.