149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sagði hér í fyrra andsvari að ég væri sammála hv. þingmanni. Ég er hjartanlega sammála honum. Þetta er sameiginlegt verkefni ef við ætlum að láta alla þessa hagstjórn virka, vinnumarkað, peningastefnu, ríkisfjármálastefnu.

Af því að við hv. þingmaður erum í hv. fjárlaganefnd og erum að skoða þessa hluti ber að koma því að hér að þrátt fyrir allt hefur samneyslan sem hlutfall af vergri landsframleiðslu haldist sú sama síðastliðin ár (Gripið fram í.) á sama tíma og verg landsframleiðsla vex mjög mikið.

Hitt vil ég segja, af því að ég tilheyri hæstv. ríkisstjórn, að áherslan á menntamál í fjárlögunum er framtíðarhagvöxtur, ekki satt? Á samgöngur, framtíðarhagvöxtur, ekki satt? Og á heilbrigðiskerfið. Það er mjög aðkallandi að við förum í fjárfestingar á því sviði. Forgangsröðunin að því marki er rétt.