149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:57]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ágæta ræðu. Mig langar aðeins að ræða við hann um það sem kemur fram í tillögu 7 um innflæðishöftin og fá aðeins meiri og betri sýn þingmannsins á hvað honum finnst um innflæðishöft eins og þar eru reifuð með tilliti til notkunar þeirra sem varúðartækis. Það hefur nokkuð komið fram í umræðunni í dag, alla vega hjá einhverjum þingmönnum sem eru mjög hræddir við þetta tæki og óttast að því kunni að vera misbeitt og jafnvel að það geti valdið einhverjum losaragangi í hagkerfinu. Ég er ekki sammála. Ég held að þetta sé mikilvægt tæki í verkfærakistu Seðlabankans. Þess vegna langar mig að heyra álit hv. þingmanns á því.