149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna sem er mjög góð og gagnleg. Innflæðishöftin eins og við höfum notað þau eru afar mikilvægt varúðartæki. Þessi skýrsla er góð vegna þess að nú getur maður flett upp í henni á bls. 168, af því að þetta er að fyrirmynd innflæðishaftanna í Síle þar sem segir að fjármögnunarkostnaður hækki. Það sé reynsla Síle. Og af hverju ekki hér? Á það hefur verið bent. Um leið og ég segi það þá er auðvitað nauðsynlegt að hafa þetta tæki í skúffunni með þessa sjálfstæðu peningastefnu og íslensku krónuna. Ég er sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem lýsti því mjög vel. Það er ekki nauðsynlegt að nota sleggjuna, stundum dugar dúkkhamarinn.