149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv þingmanni ræðu hans. Það er mjög við hæfi að hann sem formaður fjárlaganefndar geri að sérstöku umtalsefni samhengi ríkisfjármála og peningamála, þessir tveir þættir í hagstjórninni þurfa auðvitað að styðja hvor annan. Þetta gerði hann með vísan til laga um opinber fjármál sem sett voru 2015. Ég vil ekki hrapa að ályktunum eða sýna neina fljótfærni hér, en miðað við þá reynslu sem sýnist hafa fengist af þessum lögum og ákveðnum lausatökum — ég gæti nefnt dæmi en vegna þessa stutta ræðutíma hef ég ekki tíma til þess — vil ég leyfa mér að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að reynslan gefi tilefni til að þessi lög verði tekin til endurskoðunar.