149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni þessa mætu spurningu. Við hv. þingmaður eigum sæti í fjárlaganefnd og ég er þeirrar skoðunar að við eigum í raun alltaf að vera með þessi lög undir í endurskoðun í okkar vinnu. Það er gott að fá þessa spurningu núna af því að við í hv. fjárlaganefnd erum að vinna við og fjalla um fjárlagafrumvarp og erum búin að fara í gegnum næstum því allt hringferlið frá stefnu yfir í áætlun og svo í frumvarpið sem hvílir á þeim tveimur stefnum og áætlun. Svo förum við í skýrslu ráðherra sem er nýtt og í fyrsta skipti endurskoðun á ríkisfjármálaáætlun. Þá held ég að ég og hv. þingmaður og hv. fjárlaganefnd getum betur metið hvort það sé eitthvað í lagarammanum sem við viljum breyta og bæta.