149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:04]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og leyfi mér að taka undir með honum um það að þessi lög hljóta auðvitað, líka í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur, að sæta stöðugri endurskoðun. Svo ég nefni nokkur dæmi af handahófi: Menn þekkja umræður hér um umgengni um 24. gr. laga um opinber fjármál varðandi hinn almenna varasjóð. Menn þekkja það að Ríkisendurskoðun treystir sér ekki til að árita ríkisreikning fyrir árið 2017 og menn þekkja það að tekjur og gjöld eru ýmist sett fram á rekstrar- eða greiðslugrunni eftir því hvernig á stendur. Að öllu samanlögðu er mjög erfitt að átta sig á mikilvægum þáttum í ríkisbúskapnum af þessum ástæðum og ástæða til þess að huga að því að lögin séu þannig gerð að ríkisfjármálin geti sem best (Forseti hringir.) stutt og spilað með peningamálunum í hagstjórninni yfir höfuð að tala.