149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann kemur hér inn á samspil peningamálastefnu og ríkisfjármála og að við fylgjum leikreglum. Óháð því hvaða leik við veljum þá eigum við að gangast undir reglurnar sem við setjum í þeim leik. Það er inntakið m.a. í skýrslunni sem við ræðum.

Það eru skýrar reglur um meðhöndlun almenna varasjóðsins. Það er á okkar ábyrgð í hv. fjárlaganefnd að fylgja þeim eftir þegar kemur til þess að nýta hann og fá rök fyrir þeirri notkun. Þetta er eitt dæmi um það að við erum þó að fylgja reglum og reyna að ala á aga inn í kerfið. Það höfum við sannarlega gert. Við höfum bæði kallað fyrir tvo hæstv. ráðherra og við höfum ítrekað sent erindi á Ríkisendurskoðun. Það er kannski skýrt dæmi um að við erum meðvituð um það að fylgja leikreglum.