149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:07]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrsluna Framtíð íslenskrar peningastefnu. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. forsætisráðherra framsögu hennar og umræðuna í dag. Það sem hér á sér stað er eins konar upptaktur að mjög mikilvægu ferli sem felur í sér umræður og greiningu á þeirri peningastefnu sem við fylgjum og þeim kostum sem okkur kunna að standa opnir, eða ekki opnir. Í framhaldinu væntanlega umræður um frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra hefur boðað um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands.

Það er ágætt hversu vel hefur tekist til í dag, miklar og þarfar og góðar umræður. Ég var hér með skrifaða ræðu og ætla eiginlega að leggja hana til hliðar og fjalla um þetta laust og bundið þegar svona langt er liðið á umræðuna. En mig langar til að segja að það er hressilegur og að sumu leyti ferskur andblær sem fylgir þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir. Margt er vel sagt og hún geymir ýmsan áhugaverðan fróðleik og greiningar um efnahags- og peningamál hér á landi. Ég þakka skýrsluhöfundum gott verk.

Nú hefur komið fram að skýrsluhöfundar slá því föstu að krónan verði áfram gjaldmiðill þjóðarinnar í nánustu framtíð. Ég leyfi mér að bæta við: Hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér þegar lengra er horft, það vitum við náttúrlega ekki. Starfshópurinn tekur í raun aðeins fyrir tvo kosti, þ.e. að halda áfram þeirri stefnu sem við höfum fylgt nú um skeið og endurbæta framkvæmd hennar. Hinn kosturinn er svokallað myntráð en hann er sleginn út af borðinu og vísa ég til raka starfshópsins fyrir því.

Íslendingum er í raun og sanni vandi á höndum þegar kemur að hornsteini og umgjörð efnahagslífsins, sem er auðvitað gjaldmiðillinn. Við eigum kannski ekki mjög margra kosta völ eins og sakir standa annarra en þeirra að bæta það fyrirkomulag sem við höfum hér og af hálfu þessa starfshóps liggja nú fyrir ýmsar gagnlegar og vel rökstuddar ábendingar í því efni.

Meðan ég hef enn nokkurn tíma langar mig til að nefna þau helstu atriði sem ég tel markverð í þessu, svo að ég brenni ekki inni á tíma, en það er það að þjóðhagsvarúð og fjármálastöðugleiki skuli vera á einum stað. Þarna er í raun í fyrsta sinn tekin upp markverð umræða um það hvort markmiðið eigi að standa hinu fremra. Niðurstaða hópsins er sú að verðstöðugleikinn skuli víkja þegar sjónarmið um þjóðhagsvarúð eru uppi.

Ég hlýt auðvitað, eins og fleiri hér, að fagna sérstaklega umræðu um húsnæðisliðinn og ályktunum og ábendingum starfshópsins í því efni. Ég kem að því nánar á eftir.

Loks vil ég nefna hér hin nýsjálensku umferðarljós sem er eins konar tæknimál fyrir það að setja umgjörð eða ramma utan um aðgerðir, stundum kallað inngrip, Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði.

Loks vil ég nefna sérstaklega umræðu um innflæðishöftin. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra fyrirgefi að ég noti þetta orð en það er sótt í skýrslu starfshópsins.

Tillögur starfshópsins miða að því að bæta umgjörð þess fyrirkomulags verðbólgumarkmiðs sem við höfum búið við um skeið. Þetta fyrirkomulag er ástundað í ýmsum löndum, er vel þekkt og á sér ýmsar fyrirmyndir og hliðstæður. Fyrirkomulagið er rökstutt með því að með því sé lögð áhersla á gagnsæi og opinbera ábyrgð sem falli vel að leikreglum lýðræðislegs samfélags.

Nú eru þarna tillögur um að taka þjóðhagsvarúð föstum tökum og skilgreina einn ábyrgðaraðila, eins og það heitir, fyrir beitingu stjórntækja sem henni fylgja. Þarna eru tillögur um skipulagslegar breytingar í Seðlabanka Íslands. Ég skal svo sem ekki hafa margt um það að segja hvort verið er að skáka einhverjum seðlabankastjórum eða aðstoðarbankastjóra þarna til eða frá. Það er kannski ekki stóra málið. Enn hitt er annað, sem ég tel vega miklu þyngra, að í þeim tillögum sem þarna eru, um að færa mikil og aukin verkefni og ábyrgð á hendur Seðlabankans, skortir algerlega umfjöllun í þessari skýrslu, sem hlýtur að verða í frumvarpi, um eftirlit með þeirri stofnun; aukið og virkt lýðræðislegt eftirlit með þeirri stofnun sem á að fara með svo viðamikið hlutverk. Svo að ég taki sem dæmi þá gerist það hér á vettvangi Alþingis að fulltrúar Seðlabankans koma með reglubundnu millibili á opinn fund í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þeim fundi er sjónvarpað eða hann sendur út á vef þingsins. Þessir fundir eru ekki mjög langir, reyndar mjög stuttir, og út af fyrir sig er þetta gott svo langt sem það nær en það þyrfti að vera miklu meira og það þarf að vera stofnanaleg umgjörð utan um eftirlit með þessari starfsemi. Þetta er lítið innlegg inn í vinnuna um samningu frumvarpsins.

Síðan má kannski segja að ýmissa tóntegunda gæti í þessari skýrslu. Það er svolítið í dúr þegar verið er að fjalla um ýmsa ferska vinda sem leika um hið alþjóðlega peningakerfi og ályktanir af annarra reynslu. En síðan kemur dálítið dimmur mollhljómur og menn verða mjög alvarlegir í bragði þegar þeir fara að tala um nýja aðstoðarseðlabankastjóra sem starfi við hlið hins og fjölskipað stjórnvald þarna inni í bankanum. Enn þyngist tónninn þegar farið er að tala um fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd. Málið er að umfjöllun um þessa þætti er út af fyrir sig ágæt svo langt sem hún nær. Það er talað um tvíverknað og flókið ákvarðanaferli en það hefði verið fengur að greiningu á árangri af störfum þessara nefnda og ráða og mundi slík greining styrkja tillögur um breytingar í þessu efni.

Eins og ég gat um er að mati starfshópsins nauðsynlegt að staðfesta fjármálastöðugleika sem það markmið Seðlabankans sem hafi forgang yfir verðbólgumarkmið við gefnar aðstæður. Þetta rökstyður starfshópurinn með vísan til hins þjóðfélagslega kostnaðar sem hlýst af fjármálaóstöðugleika og Íslendingar þekkja hann mæta vel; því miður, vil ég leyfa mér að segja. Í ljósi hans hljóti fjármálastöðugleiki að hafa forgang yfir verðstöðugleika ef slíkar aðstæður skapast.

Hvað varðar húsnæðislið vísitölunnar hefur það nú kannski flest komið fram hér. Það er gert þarna að veigamiklu umræðuefni í skýrslunni að með því að hafa húsnæðisliðinn inni í þeirri vísitölu sem fylgt er við mótun stefnu og framkvæmd á stefnu er að umtalsverðu leyti verið að bregðast við breytingum á eignaverði. Þessi spurning er vel þekkt úti um allan heim. Ég held að mér sé óhætt að segja að almennt sé litið þannig á að við framkvæmd peningamálastefnu sé ekki á Seðlabanka leggjandi að leitast við að bregðast við verðbreytingum á eignamörkuðum, enda er eðli þeirra mála með þeim hætti að ef slíkt gerist myndi það kalla á svo miklar og stórkarlalegar aðgerðir af hálfu bankans að raunhagkerfið, eins og stundum er kallað, mundi þurfa að þola þungar búsifjar af þeim sökum.

Starfshópurinn segir að með því að hafa þetta eignaverð inni í vísitölunni, eins og nú er, sé bankinn neyddur til að fara í leiðangur og, með leyfi forseta, til að sprengja húsnæðisbólur með töluverðri áhættu fyrir fjármálastöðugleika og kostnaði fyrir raunhagkerfið. Menn þekkja það auðvitað að verð á eignamörkuðum er svipult og sú hefur sannarlega orðið raunin um fasteignaverð hér á landi; ýmsar skýringar liggja að baki því, ekki síst á framboðshlið markaðarins.

Skýrt er dregið fram af hálfu starfsfólksins að Hagstofa Íslands notar þriggja mánaða hlaupandi meðaltal fasteignaverðs sem ratar beinustu leið inn í vísitöluna, eins og ýmsir hafa hér getið um. Um leið er bent á að í löndum sem við myndum gjarnan vilja bera okkur saman við, eins og Kanada og Svíþjóð, er stuðst við 25 og 30 ára hlaupandi meðaltal.

Eins er gagnlegt, þar sem starfshópurinn vísar til reynslunnar frá árunum 2004–2006, sem er ítarlega rakið dæmi þarna, og sú ályktun dregin að um sé að ræða kennslubókardæmi um hættuna sem hlýst af því að peningastefnunni sé beitt gegn eignaverðsbólum. Það er rakið að á síðustu árum hafi verið mjög mikið misvægi í verðbólguþróun þar sem miklar hækkanir á fasteignaverði hafi leitt til að fasteignaliðir vísitölunnar — ja, þeir tala gjarnan um fasteignalið í þessari skýrslu, oftlega í þessum sal er hann kallaður húsnæðisliður — hafi hækkað um 15–20% á ári en á sama tíma hafi mælst 3–5% verðhjöðnun á innfluttum vörum.

Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri og rifja enn eina ferðina upp að fram hefur komið, í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram hér á liðnu þingi, að á fimm ára tímabili, 2013–2017, lögðust 118 milljarðar ofan á höfuðstóla fasteignalána, lána til kaupa á íbúðarhúsnæði, af völdum húsnæðisliðarins. Hefði honum ekki verið til að dreifa á þessu tímabili hefðu, vegna almennra verðlagsbreytinga á sama tímabili, lagst 15 milljarðar ofan á höfuðstól. Menn beri saman þessar tölur, 15 milljarðar vegna almennra verðlagsbreytinga, 118 milljarðar vegna húsnæðisliðarins eins og sér.

Ekki er seinna vænna en að fara að taka á þessu máli og liggja tillögur um það fyrir Alþingi sem ég leyfi mér að vekja athygli á nú.

Ég vil sömuleiðis vekja athygli á þeirri athugasemd starfshópsins að það sé mikið efamál að svo mikil hækkun á einum vöruflokki, eins og það er orðað, þ.e. húsnæði, sem raun ber vitni geti talist raunveruleg verðbólga, eins og komist er að orði — mér koma í hug, með leyfi forseta, nokkrar ræður sem ég hef flutt um þetta hér í þessum sal — heldur aðeins hliðrun á hlutfallsverðum þegar aðrar vörur í vísitölunni virðast vera á breiðri leitni til lækkunar, eins og það heitir á þessari skýrslu-íslensku. Reyndar hefði þessi skýrsla nú alveg þolað einn góðan yfirlestur, svo að ég skjóti því nú að.

Ég fagna þeirri niðurstöðu starfshópsins að taka þá grundvallarafstöðu, eins og það er orðað, að húsnæðisverð eigi ekki heima í verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands og ekki eigi að reyna að beita stýrivöxtum gegn fasteignaverði þegar vaxtamiðlunin er eins veik og raunin er. Í skýrslu starfshópsins segir að Seðlabankinn gæti miðað við aðrar vísitölur, svo sem vísitölu neysluverðs án húsnæðis eða samræmda vísitölu neysluverðs.

Umfjöllunin í þessari skýrslu hlýtur auðvitað að draga það skýrt fram að endurskoða þarf með hvaða hætti og hvaða gerð vísitölu er beitt við útreikning á greiðslum og höfuðstóli verðtryggðra lána.

Ég ætla að leyfa mér að nefna það hér í lokin að fengur hefði verið að meiri greiningu á verðtryggingu í íslensku samfélagi. Það er annað mál sem bíður. Það er endurskipulagning hér á fjármálamarkaðnum og við getum ekki búið við það áfram að vera eina þjóðin í heimi, að heita má, sem er með sérhannaða lausn sem á sér engar hliðstæður eða fyrirmyndir. Það verður nægur tími til að ræða það síðar. Ég er búinn að nefna umferðarljósakerfið og innflæðishöftin og leyfi mér að nefna rétt í lokin umsagnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um þessa skýrslu, það væri auðvitað mikill fengur að því ef þær væru gerðar opinberar. Sömuleiðis erindisbréf þess hóps sem starfar að endurskoðun á lögum um Seðlabankann.