149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:23]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ágæt yfirferð hjá hv. þingmanni og ég þakka fyrir hana þó að ég hafi misst af fyrstu mínútunni eða svo. En mig langaði til að forvitnast aðeins meira um þessa hugmynd um 30 ára hlaupandi meðaltal á húsnæðisliðnum. Það er nefnilega áhugaverður punktur að skoða, ekki bara hvernig við reiknum húsnæðisliðinn inn í verðbólgu, og reyndar aðra liði, heldur á hvaða forsendum við gerum það. Það væri áhugavert að heyra aðeins meira frá hv. þingmanni um það. Nú hef ég sjálfur verið mjög hlynntur þeirri hugmynd að taka húsnæðisliðinn út, mestmegnis vegna þess möguleika að samræma verðbólgumælingar okkar við önnur lönd þannig að hægt sé að gera samanburð. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, nú þegar verðbólguþrýstingurinn er að breytast, að það að taka húsnæðisliðinn út geti haft neikvæð áhrif, þ.e. áhrif til hækkunar verðbólgu miðað við forsendurnar eins og þær eru í dag og hvort hann hafi skoðað tölur þess efnis. Ég hef sjálfur ekki gert það.

Að síðustu: Úr því að hv. þingmaður hélt sig innan marka þeirra tveggja valkosta sem skoðaðir voru í skýrslunni spyr ég hvort hann hefði áhuga á því að skoða aðra valkosti en þá sem nefndir voru, t.d. skriðgengi og þar fram eftir götunum.