149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð nú að leyfa mér að segja að ég lít á þetta eins og einhvers konar slys, að menn skyldu hafa hrapað að því að reikna húsnæðisverð inn með þriggja mánaða hlaupandi meðaltali þegar fyrir liggja skýrar fyrirmyndir, eins og til að mynda frá Svíþjóð, sem við berum okkur saman við í svo mörgu tilliti. Það er ekki eins og löng leið sé á milli sænsku hagstofunnar og hinnar íslensku. Hagstofur eiga mikið samstarf sín á milli og upplýsingamiðlun. Ég verð eiginlega að leyfa mér að lýsa ákveðinni furðu á því að þessi kostur skyldi hafa orðið ofan á og það svona lengi og athugasemdalaust.

Þetta er raunverulega í fyrsta sinn sem það er dregið fram, alla vega með svo skýrum hætti, hversu hratt þessar breytingar á hinu mælda húsnæðisverði — sem út af fyrir sig er alveg heilt umræðuefni, hvernig standa eigi að þeim — fara inn í vísitöluna.

Fyrir liggja upplýsingar um það aftur í tímann að húsnæðisverð hækkar að meginstefnu til meira en hið almenna verðlag. Það eru dæmi úr hruninu um að þetta hafi snúist við. Hrunið er náttúrlega algerlega einstakur atburður. Það er kannski eins og það er. Auðvitað ber að hafa þetta í huga sem hv. þingmaður vekur hér máls á og ég get alveg tekið undir það.

Varðandi aðra kosti þá ætla ég að leyfa mér að segja að eins og ég gat um, kannski á þeirri mínútu í ræðu minni sem hv. þingmaður missti af, þá sýnist mér að helst í bráð, ef við tölum um í bráð og lengd, eigum við ekki margra annarra kosta völ en að leitast við af fremsta megni að bæta það kerfi sem við búum við eftir því sem framast er kostur.